Fjórir dómarar við Landsrétt sem fóru í leyfi eftir dóm undirréttar Mannréttindadómstóls Evrópu (MDE) eru enn á fullum launum. Þetta kemur fram í svari dómstólasýslunnar við fyrirspurn Morgunblaðsins.
„Umræddir einstaklingar eru samkvæmt 1. mgr. 21. gr. laga um dómstóla nr. 50/2016 skipaðir ótímabundið sem dómarar við Landsrétt. Samkvæmt 61. gr. stjórnarskrár Íslands verður dómurum ekki vikið úr embætti nema með dómi, [en] þetta er ætlað til að tryggja sjálfstæði dómstólanna.
Stjórn dómstólasýslunnar getur samkvæmt 4. mgr. 7. gr. laga um dómstóla nr. 50/2016 veitt dómurum leyfi frá störfum. Þeir Ásmundur [Helgason] og Jón [Finnbjörnsson] óskuðu eftir tímabundnu leyfi frá störfum sem dómarar við Landsrétt í júlí 2019 og voru beiðnirnar samþykktar á fundi stjórnar dómstólasýslunnar skömmu síðar. Þær Arnfríður [Einarsdóttir] og Ragnheiður [Bragadóttir] óskuðu eftir tímabundnu leyfi frá störfum sem dómarar við Landsrétt í september 2019. Þær beiðnir voru einnig samþykktar á fundi stjórnar dómstólasýslunnar,“ segir í svarinun sem birt er í Morgunblaðinu í dag.