Forseti Mannréttindadómstóls Evrópu hefur hafnað ósk Sigríðar Andersen, fyrrverandi dómsmálaráðherra, um að koma á framfæri sjónarmiðum sínum í máli á hendur íslenska ríkinu sem rekið er fyrir yfirdeild dómsins.
Í umfjöllun um dómsmál þetta í Morgunblaðinu í dag segir Sigríður að sér hefði þótt eðlilegt að fá að skýra frá sinni hlið með greinargerð í ljósi þess að fjallað sé um hana í „annarri hverri málsgrein“ í málflutningi lögmanns sækjanda, Vilhjálms H. Vilhjálmssonar.
Sjónarmið hennar muni þó engu að síður koma fram í málflutningi ríkisins, segir Sigríður, en hún hefur sent ríkislögmanni yfirlýsingu, að hans ósk, þar sem farið er yfir málavöxtu.