„Sprenging“ á Flateyri þegar stúlkunnar var saknað

„Við höndlum þetta bara á okkar hátt og við kunnum …
„Við höndlum þetta bara á okkar hátt og við kunnum það alveg við Flateyringar að taka utan um hvert annað þegar við þurfum á því að halda,“ segir Páll Önundarson bílstjóri frá Flateyri. mbl.is/Arnar Þór

„Það er eitt sem situr eftir, aðallega, og það er það að við höfum búið undir þessum görðum frá því þeir voru teknir í notkun og þeir eru búnir að reynast alveg frábærlega – þangað til á þriðjudagskvöld,“ segir Páll Önundarson, bílstjóri á Flateyri. Hann segist telja að það risti djúpt í huga Önfirðinga og sérstaklega Flateyringa að varnirnar hafi ekki haldið að öllu leyti.

„Þarna eru varnir, sem voru að vísu hannaðar og byggðar á árunum 1996 og upp úr. Þær höndluðu ekki þetta flóð sem kom. En að fara að hengja einhvern sérstaklega fyrir það finnst mér ekki réttlátt. Þetta er bara eins og með önnur mannanna verk að sum virka, önnur ekki. Þá er bara að ráðast í það að laga garðinn, þannig að hann veki traust hjá bæjarbúunum,“ segir Páll, sem blaðamaður náði tali af í gær.

Hann, eins og margir aðrir Flateyringar, upplifir ákveðið óöryggi, eftir að hafa upplifað sig svo gott sem 100% öruggan gegn snjóflóðum á þorpið frá því garðarnir risu. „Sprenging“ varð í þorpinu þegar í ljós kom að unglingsstúlku var saknað í flóðinu, en blessunarlega fannst hún heil á húfi. En þetta á ekki að geta komið fyrir, segir Páll, sem býr í Ólafstúni, nokkrum húsum frá húsinu sem flóðið lenti á.

„Ég vona að menn setjist yfir þetta og ræði hvað megi betur fara. Þetta er garður sem var gerður úr jarðvegi, það þarf ekki að panta hann frá útlöndum, hann er þarna. Það hafa orðið miklar framfarir í hönnun á snjóflóðamannvirkjum og ég tala nú ekki um tölvulíkönum,“ segir Páll og rifjar upp í flæðandi samtali við blaðamann þá tíma er engir voru varnargarðarnir.

Þá fór fjölskyldan alltaf að heiman, úr efstu götu bæjarins, og færði sig neðar á eyrina þegar spáð var vondu veðri. „Þú átt erfitt með að sannfæra þig þegar börnin þín koma og spyrja: „Mamma, eða pabbi, er óhætt að sofa hérna í nótt?“ segir Páll, sem segist telja að þetta óöryggi hafi að einhverju leyti snúið til baka.

Páll Önunandarson fer ekki fram hjá vestfirskum vegfarendum, en hann …
Páll Önunandarson fer ekki fram hjá vestfirskum vegfarendum, en hann ekur um með fisk á milli byggðarlaga á bíl sem er merktur skjaldarmerki Flateyrar eins og það var fyrir sameiningu. Sama merki hangir hvern einasta dag á flaggstöng í garðinum hjá honum. mbl.is/Arnar Þór

Taka utan um hvert annað

Undanfarnir dagar hafa verið þungir fyrir marga þá sem lifðu flóðið mannskæða árið 1995 og þá sem urðu fyrir tjóni nú.

„Við höndlum þetta bara á okkar hátt og við kunnum það alveg við Flateyringar að taka utan um hvert annað þegar við þurfum á því að halda. En það hafa náttúrulega orðið mikil kynslóðaskipti á Flateyri síðan á flóðinu. Það fóru margir í burtu og svo náttúrulega bara deyr fólk eins og gengur og gerist og aðrir gefast upp á þessu, sem sumir segja, þrjóskulíferni að búa þarna,“ segir Páll.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert