Þrír piltar voru í bílnum sem fór fram af Óseyrarbryggju í Hafnarfirði í gærkvöldi og hafnaði í sjónum.
Þeir voru allir fluttir á slysadeild til aðhlynningar, en tveir piltanna síðan færðir á gjörgæsludeild Landspítalans og er ástand þeirra alvarlegt. Þriðji pilturinn var lagður inn á aðra deild spítalans og er líðan hans eftir atvikum.
Þetta kemur fram í tilkynningu frá lögreglu en ekki er hægt að veita frekari upplýsingar um málið að svo stöddu.
Slysið varð með þeim hætti að bíll piltanna, lítill jepplingur, fór í sjóinn við höfnina um klukkan 21 í gærkvöldi. Köfurum frá slökkviliðinu á höfuðborgarsvæðinu tókst að ná piltunum út úr bílnum og voru þeir fluttir á spítala hið snarasta.
Samkvæmt upplýsingum frá slökkviliðinu fékk neyðarlínan tilkynningu um slysið klukkan 21:08. Fyrstu viðbragðsaðilar voru komnir að höfninni níu mínútum síðar, eða klukkan 21:17. Einn piltanna var þá kominn út úr bílnum og var að reyna að koma sér upp á bryggjuna. Kafarar slökkviliðsins náðu hinum piltunum tveimur úr bílnum. Klukkan 21:38 var búið að ná öllum úr bílnum.
Bílnum var náð upp úr höfninni skömmu eftir miðnætti og nutu lögregla og slökkvilið aðstoðar fimm kafara frá séraðgerðadeild Landhelgisgæslunnar við aðgerðirnar.
Svæðið er vaktað með eftirlitsmyndavélum og fékk lögreglan afhent myndefni í gærkvöldi sem varpar á ljósi hvernig slysið varð. Lúðvík Geirsson, hafnarstjóri hjá Hafnarfjarðarhöfnum, segir í samtali við mbl.is að lögreglan hafi fengið myndefni sem sýni slysstaðinn frá þremur eða fjórum sjónarhornum.
Áfallahjálparteymi Rauða krossins mun styðja við ýmsa hlutaðeigandi eftir því sem við á, í samráði við áfallaráð Hafnarfjarðarbæjar. Boðað hefur verið til bænastundar í Hafnarfjarðarkirkju síðdegis.
Fréttin hefur verið uppfærð