Tveir á gjörgæslu eftir slysið við Óseyrarbryggju

Frá störfum viðbragðsaðila í gærkvöld.
Frá störfum viðbragðsaðila í gærkvöld. mbl.is/Kristinn Magnússon

Þrír piltar voru í bílnum sem fór fram af Óseyrarbryggju í Hafnarfirði í gærkvöldi og hafnaði í sjónum. 

Þeir voru allir fluttir á slysadeild til aðhlynningar, en tveir piltanna síðan færðir á gjörgæsludeild Landspítalans og er ástand þeirra alvarlegt. Þriðji pilturinn var lagður inn á aðra deild spítalans og er líðan hans eftir atvikum.

Þetta kemur fram í tilkynningu frá lögreglu en ekki er hægt að veita frekari upplýsingar um málið að svo stöddu.

Slysið varð með þeim hætti að bíll piltanna, lítill jepplingur, fór í sjóinn við höfnina um klukkan 21 í gærkvöldi. Köf­ur­um frá slökkviliðinu á höfuðborg­ar­svæðinu tókst að ná piltunum út úr bíln­um og voru þeir fluttir á spít­ala hið snarasta. 

Samkvæmt upplýsingum frá slökkviliðinu fékk neyðarlínan tilkynningu um slysið klukkan 21:08. Fyrstu viðbragðsaðilar voru komnir að höfninni níu mínútum síðar, eða klukkan 21:17. Einn piltanna var þá kominn út úr bílnum og var að reyna að koma sér upp á bryggjuna. Kafarar slökkviliðsins náðu hinum piltunum tveimur úr bílnum. Klukkan 21:38 var búið að ná öllum úr bílnum. 

Þrír piltar voru í bílnum sem fór fram af Óseyrarbryggju …
Þrír piltar voru í bílnum sem fór fram af Óseyrarbryggju í Hafnarfirði í gærkvöld og hafnaði í sjónum. Tveir eru á gjörgæslu en sá þriðji var lagður inn á aðra deild spítalans. mbl.is/Kristinn Magnússon

Lögreglan styðst við upptökur úr eftirlitsmyndavélum

Bíln­um var náð upp úr höfn­inni skömmu eft­ir miðnætti og nutu lög­regla og slökkvilið aðstoðar fimm kaf­ar­a frá séraðgerðadeild Land­helg­is­gæsl­unn­ar við aðgerðirn­ar. 

Svæðið er vaktað með eftirlitsmyndavélum og fékk lögreglan afhent myndefni í gærkvöldi sem varpar á ljósi hvernig slysið varð. Lúðvík Geirsson, hafnarstjóri hjá Hafnarfjarðarhöfnum, segir í samtali við mbl.is að lögreglan hafi fengið myndefni sem sýni slysstaðinn frá þremur eða fjórum sjónarhornum. 

Áfalla­hjálp­ar­t­eymi Rauða kross­ins mun styðja við ýmsa hlutaðeig­andi eft­ir því sem við á, í sam­ráði við áfallaráð Hafn­ar­fjarðarbæj­ar. Boðað hefur verið til bænastundar í Hafnarfjarðarkirkju síðdegis. 

Fréttin hefur verið uppfærð

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka