Viðbragðshópur Rauða krossins var virkjaður í gærkvöldi vegna alvarlegs slyss sem varð við Óseyrarbryggju í Hafnarfirði laust eftir klukkan 21. Þá tók Fríkirkjan í Hafnarfirði á móti þeim sem vildu í nótt.
Lítill jepplingur fór í sjóinn við höfnina og voru þrír í honum. Köfurum frá slökkviliðinu á höfuðborgarsvæðinu tókst að ná fólkinu út úr bílnum og var það flutt á spítala til aðhlynningar en ekki fengust upplýsingar um líðan þess að svo stöddu. „Þetta var mjög alvarlegt slys,“ segir Jóhann Örn Ásgeirsson, aðstoðarvarðstjóri hjá slökkviliðinu á höfuðborgarsvæðinu, í samtali við mbl.is.
Bílnum var náð upp úr höfninni skömmu eftir miðnætti og nutu lögregla og slökkvilið aðstoðar fimm kafara frá séraðgerðadeild Landhelgisgæslunnar við aðgerðirnar.
Áfallahjálparteymi Rauða krossins mun styðja við ýmsa hlutaðeigandi eftir því sem við á, í samráði við áfallaráð Hafnarfjarðarbæjar.