„Yfir helgina hefur verið álag á bráðamóttökunni vegna þessara alvarlegu slysa sem orðið hafa.“ Þetta segir Jón Magnús Kristjánsson, yfirlæknir bráðalækninga á Landspítalanum, í samtali við mbl.is, spurður um helgina á bráðamóttökunni.
Rætt var við Jón Magnús á föstudagskvöld, eftir alvarlegt bílslys á Skeiðarársandi, og sagði hann þá að starfsfólk hafi verið vel undirbúið.
Við það hafi svo bæst alvarlegt bílslys á Sandgerðisvegi í gær og slysið sem varð á föstudagskvöld þegar þrír ungir menn í bíl höfnuðu í sjónum við Óseyrarbryggju í Hafnarfirði.
Áfallateymi Hafnarfjarðar mun bjóða nemendum sálrænan stuðning í Lækjarskóla og Flensborgarskólanum í fyrramálið.
Þrír piltar voru í bílnum og eru tveir þeirra alvarlega slasaðir á gjörgæslu en sá þriðji liggur á annarri deild spítalans og er líðan hans eftir atvikum.
Sem fyrr segir var álag á bráðadeild vegna slysanna, að sögn Jóns, en hann segir þó hafa gengið nokkuð vel. „Það hefur tekist að rýma til og tryggja pláss fyrir alla þá sem hafa þurft þangað að leita.“
Hann nefnir þó að of mikill fjöldi sjúklinga dvelji á bráðamóttökunni sem bíða eftir innlögn annars staðar. Það sé ástand sem hefur varað í of langan tíma, en Jón bindur vonir við átakshópinn sem ætlað er að finna lausnir á vandanum og hefur störf á morgun.