Áreksturinn sem varð á Sandgerðisvegi í gær varð þegar öðrum bílanna sem í árekstrinum lentu var veitt eftirför lögreglu. Þetta staðfestir Ólafur Helgi Kjartansson, lögreglustjóri á Suðurnesjum, í samtali við mbl.is. Víkurfréttir greindu fyrst frá.
Ólafur Helgi segir að slysið hafi verið alvarlegt, en gat ekki tjáð sig frekar um tildrög slyssins eða hvers vegna lögregla var á eftir ökumanninum.
Eins og greint var frá á mbl.is í gær voru þrír í bílunum tveimur og voru allir fluttir á bráðamóttökuna í Fossvogi. Slökkvilið var sent á vettvang og þurfti að beita klippum til að ná fólki út.