Snýst um kjarna Icesave-deilunnar

Telja verður ólík­legt að Ísland fái und­anþágu frá ákvæðum nýrr­ar til­skip­un­ar Evr­ópu­sam­bands­ins um inni­stæðutrygg­ing­ar, en sam­bandið lít­ur svo á að ríki sem til­skip­un­in nær til hafi skyld­um að gegna sam­kvæmt henni vegna tryggðra inni­stæðna.

Þetta er á meðal þess sem fram kem­ur í sam­eig­in­legu svari ut­an­rík­is­ráðuneyt­is­ins og fjár­málaráðuneyt­is­ins við fyr­ir­spurn frá mbl.is, en um­rædd til­skip­un Evr­ópu­sam­bands­ins um inni­stæðutrygg­ing­ar nr. 2014/​49/​EU nær til Íslands vegna aðild­ar lands­ins að samn­ingn­um um Evr­ópska efna­hags­svæðið (EES). Málið snýst um það hvort til­skip­un­in feli í sér rík­is­ábyrgð á bankainni­stæðum.

Eldri til­skip­un Evr­ópu­sam­bands­ins um inni­stæðutrygg­ing­ar var í aðal­hlut­verki í Ices­a­ve-deil­unni á milli Íslend­inga ann­ars veg­ar og breskra og hol­lenskra stjórn­valda, sem nutu stuðnings sam­bands­ins, hins veg­ar í kjöl­far banka­hruns­ins hér á landi 2008.

Deil­an sner­ist í grunn­inn um það hvort ís­lenska ríkið bæri ábyrgð á því sam­kvæmt þeirri til­skip­un að Trygg­inga­sjóður inni­stæðueig­enda og fjár­festa (TIF) gæti staðið við skuld­bind­ing­ar sín­ar gagn­vart inni­stæðueig­end­um líkt og Bret­ar og Hol­lend­ing­ar héldu fram. Hins veg­ar komst EFTA-dóm­stóll­inn að þeirri niður­stöðu í lok janú­ar 2013 að ekki væri séð að til­skip­un­in fæli í sér slíka ábyrgð ís­lenska rík­is­ins við þær aðstæður sem sköpuðust hér á landi í kjöl­far falls viðskipta­bank­anna þriggja.

Ices­a­ve-mál framtíðar­inn­ar tap­ast

Guðlaug­ur Þór Þórðar­son ut­an­rík­is­ráðherra hef­ur und­an­far­inn ára­tug ít­rekað varað við nýrri til­skip­un Evr­ópu­sam­bands­ins um inni­stæðutrygg­ing­ar en hún hef­ur þegar tekið gildi inn­an sam­bands­ins og til stend­ur að taka hana upp í EES-samn­ing­inn.

Guðlaugur Þór Þórðarson utanríkisráðherra.
Guðlaug­ur Þór Þórðar­son ut­an­rík­is­ráðherra. mbl.is/Á​rni Sæ­berg

Til­skip­un­in hef­ur einkum verið gagn­rýnd af ut­an­rík­is­ráðherra fyr­ir að kveða á um ábyrgð ríkja á inni­stæðum og að há­marks­fjár­hæð trygg­inga­vernd­ar sé í nýju til­skip­un­inni 100 þúsund evr­ur (um 13,7 millj­ón­ir króna) á hvern reikn­ing í hverri lána­stofn­un sam­an­borið við um 20 þúsund evr­ur sam­kvæmt eldri til­skip­un­inni.

Guðlaug­ur Þór sagði í umræðum á Alþingi 15. októ­ber að yrði ný til­skip­un Evr­ópu­sam­bands­ins um inni­stæðutrygg­ing­ar tek­in upp hér á landi með rík­is­ábyrgð á bankainni­stæðum myndu Ices­a­ve-mál framtíðar­inn­ar tap­ast. Sama hversu góð kerfi væru fund­in upp þá ættu bank­ar eft­ir að fara á haus­inn í framtíðinni.

„Ég ætla að lýsa því hér yfir að ég sem ut­an­rík­is­ráðherra Íslands mun aldrei standa að því að Ísland samþykki í sam­eig­in­legu EES-nefnd­inni eða á vett­vangi EES-sam­starfs­ins upp­töku og inn­leiðingu þess­ar­ar lög­gjaf­ar með þeim hætti að hún feli í sér rík­is­ábyrgð á bankainn­stæðum. Aldrei,“ sagði ráðherr­ann enn frem­ur.

Und­anþágur nauðsyn­leg­ar

Ut­an­rík­is­ráðherra sagði einnig í um­ræddri ræðu sinni á Alþingi að ólíkt þriðja orkupakka Evr­ópu­sam­bands­ins væri rík­is­ábyrgð á bankainni­stæðum „al­vöru­mál“. Und­anþágur væru nauðsyn­leg­ar „í ljósi aðstæðna hér á landi þar sem kerf­is­læg áhætta banka­kerf­is er eðli máls­ins sam­kvæmt allt önn­ur en í stærri ríkj­um.“

Bjarni Benediktsson, fjármálaráðherra og formaður Sjálfstæðisflokksins.
Bjarni Bene­dikts­son, fjár­málaráðherra og formaður Sjálf­stæðis­flokks­ins. mbl.is/​Krist­inn Magnús­son

„Ég hef þegar gert grein fyr­ir þeirri af­stöðu minni á vett­vangi EES-ráðsins, á vett­vangi EFTA og í tví­hliða sam­skipt­um að rík­is­ábyrgð á bankainn­stæðum komi ekki til greina af hálfu Íslands,“ sagði Guðlaug­ur Þór enn frem­ur í ræðu sinni í þing­inu.

Fram kem­ur í svari ráðuneyt­anna tveggja að staða máls­ins sé sú að það sé til skoðunar í vinnu­hópi Fríversl­un­ar­sam­taka Evr­ópu (EFTA) (EES-samn­ing­ur­inn er samn­ing­ur á milli Evr­ópu­sam­bands­ins og EFTA en Ísland er eitt af aðild­ar­ríkj­um EFTA) um fjár­málaþjón­ustu en full­trú­ar fjár­málaráðuneyt­is­ins eigi sæti í þeim hópi.

Þá seg­ir að til­skip­un Evr­ópu­sam­bands­ins um inni­stæðutrygg­ing­ar hafi enn sem komið er ekki verið tek­in fyr­ir í sam­eig­in­legu EES-nefnd­inni en nefnd­in sér um að samþykkja lög­gjöf frá sam­band­inu inn í EES-samn­ing­inn. Þar eiga sæti full­trú­ar Evr­ópu­sam­bands­ins sem og EFTA/​EES-ríkj­anna Íslands, Nor­egs og Liechten­stein.

Krafa um und­anþágu ekki lögð fram

Fram kem­ur í svari ráðuneyt­anna við þeirri spurn­ingu hvort hin EFTA/​EES-rík­in, Nor­eg­ur og Liechten­stein, hafi sýnt af­stöðu ís­lenskra stjórn­valda gagn­vart inni­stæðutil­skip­un Evr­ópu­sam­bands­ins sam­stöðu að form­leg afstaða þeirra til máls­ins liggi ekki fyr­ir í þeim efn­um. Málið komi ekki til kasta sam­eig­in­legu EES-nefnd­ar­inn­ar fyrr en náðst hafi sam­komu­lag um upp­töku henn­ar í EES-samn­ing­inn.

Stjórn­völd í Nor­egi hafa nálg­ast málið með tals­vert öðrum hætti en ís­lensk­ir ráðmenn en þau hafa átt í viðræðum við Evr­ópu­sam­bandið um að viðhalda lág­marks­trygg­inga­vernd sinni upp á 2 millj­ón­ir norskra króna eða sem nem­ur rúm­um 200 þúsund evr­um. Á sama tíma hafa ís­lensk stjórn­völd gagn­rýnt hækk­un lág­marks­vernd­ar­inn­ar úr 20 þúsund evr­um í 100 þúsund evr­ur eins og áður hef­ur verið fjallað um.

Rifjað er upp í svari ráðuneyt­anna að komið hafi skýrt fram í af­stöðu bæði meiri­hluta og ann­ars minni­hluta ut­an­rík­is­mála­nefnd­ar Alþing­is árið 2014 að liggja yrði ljóst fyr­ir að til­skip­un­in fæli ekki í sér rík­is­ábyrgð á inni­stæðum. Það álit hafi verið kynnt á vett­vangi vinnu­hóps EFTA og ut­an­rík­isþjón­ustu Evr­ópu­sam­bands­ins.

Spurð hvort til standi að óska eft­ir und­anþágu vegna til­skip­un­ar­inn­ar seg­ir í svari ráðuneyt­anna að þar sem málið sé enn á umræðustigi í vinnu­hópi um fjár­málaþjón­ustu hafi „enn ekki komið til þess að kraf­an um und­anþágu frá rík­is­ábyrgð hafi verið send form­lega til ESB.“ Spurð hvort stjórn­völd telji lík­legt að slík und­anþága verði veitt seg­ir: „Að teknu til­liti til til­gangs til­skip­un­ar­inn­ar og fyr­ir­liggj­andi aðlag­ana á IX. viðauka við EES-samn­ing­inn [um fjár­málaþjón­ustu] verður að telja það ólík­legt.“

mbl.is

Bloggað um frétt­ina

Fleira áhugavert

Innlent »

Fleira áhugavert
Loka