Endurvinnslan hf. endurgreiddi 2,5 milljarða króna fyrir drykkjarvöruumbúðir á liðnu ári. Alls var skilað 157 milljónum flaskna og dósa árið 2019 og eru áætluð skil um 85% af þeim umbúðum sem fóru á markað í fyrra.
Miðað við núverandi skilagjald hefur Endurvinnslan endurgreitt um 41 milljarð þau 30 ár sem fyrirtækið hefur safnað flöskum og dósum.
Helgi Lárusson, framkvæmdastjóri, Endurvinnslunnar, segir að áldós verði að nýrri áldós á 60 dögum. Við það sparist mikil orka og ekki síður hráefni. Ávinningur þess að endurvinna 85% umbúða sem skilað er nemi kolefnisjöfnun á við sjö milljón tré á ári. Orkusparnaður þess að endurvinna áldósir nemi orkuþörf um 12 þúsund meðalstórra heimila á ári, að því er fram kemur í Morgunblaðinu í dag.