Formaður Eflingar hefur tilkynnt borgarstjóra Reykjavíkur að Efling muni ekki eiga frekari viðræður við samninganefnd borgarinnar umfram það sem lög krefjast. Er þess krafist að kjaraviðræður við borgina fari héðan af fram fyrir opnum tjöldum og með beinni aðkomu borgarstjóra.
Þetta kemur fram í tilkynningu frá Eflingu, en þar er samninganefnd borgarinnar sökuð um að hafa dreift villandi upplýsingum til fjölmiðla af samningafundi hjá ríkissáttasemjara um samningstilboð Eflingar.
„Í ljósi þess að trúnaðarviðræður á vettvangi Ríkissáttasemjara hafa verið fótum troðnar af samninganefnd borgarinnar tel ég réttmætt og skynsamlegt að samningaviðræður Eflingar við Reykjavíkurborg fari eftirleiðis fram fyrir opnum tjöldum og með beinni aðkomu þinni, enda ert þú æðsti yfirmaður starfsmanna Reykjavíkurborgar,“ segir í bréfi Sólveigar Önnu Jónsdóttur til Dags B. Eggertssonar.
Efling hefur efnt til opins fundar 22. janúar þar sem borgarstjóra, fjölmiðlum og almenningi verður kynnt tilboð Eflingar til borgarinnar um „sanngjarnan og farsælan kjarasamning sem gildi til loka árs 2022“.
„Í því tilboði er fallist á sömu taxtahækkanir og samið var um á almennum vinnumarkaði í apríl síðastliðnum, auk þess sem krafist er nauðsynlegra og tímabærra ráðstafana til að leiðrétta láglaunastefnu borgarinnar.“