Ólíklegt er að hægt verði að athafna sig í Flateyrarhöfn í dag vegna slæmra veðurskilyrða.
„Það er ekkert veður til að gera neitt. Það er því miður biðstaða í augnablikinu,“ segir Guðmundur Kristjánsson, hafnarstjóri Ísafjarðarhafnar.
Hann var staddur í vettvangsferð á Flateyri ásamt Sigríði Kristinsdóttur, sérfræðingi hjá Umhverfisstofnun, og Ralf Trylla, umhverfisfulltrúa Ísafjarðarbæjar, þegar blaðamaður ræddi við hann.
Sjö bátar voru í höfninni þegar snjóflóðið féll. Einn þeirra lá við hafnarkantinn og slapp hann alveg.
Hinir bátarnir sex voru norðan við í bátahöfninni og sukku þeir allir. Einum þeirra, Blossa ÍS, hefur verið komið á land og eru rannsóknaraðilar að vinna við hann. Á laugardag var báturinn Eiður bundinn fastur við bryggjuna á hvolfi, auk þess sem bátarnir Guðjón Arnar og Sjávarperla eru sokknir í höfninni. Tveir bátar eru strandaðir, eða þeir Brói og Orri, og verða þeir væntanlega teknir upp á land síðastir, að sögn Guðmundar, sem bætir við að búið sé að hreinsa allt yfirborðsrusl úr höfninni.
Guðmundur segist vona að hægt verði að vinna í höfninni á morgun. Bátur með hífibúnað fer í slipp til Reykjavíkjur á miðvikudag og því væri gott að geta notað hann á morgun, aðallega til að ná upp Sjávarperlunni, sem er plastbátur.
Að sögn Sigríðar hjá Umhverfisstofnun er engin mengun sjáanleg lengur í höfninni til að tala um og hefur veðrið hjálpað til með það.
Engin olía lak úr Blossa ÍS þegar hann var hífður upp á land. „Við vonum að það haldi áfram svoleiðis,“ segir hún um hina bátana.