Eyrnamerkt gjöld „eiga að rata til síns heima“

Bjarni Benediktsson, fjármála- og efnahagsráðherra, á Alþingi í dag.
Bjarni Benediktsson, fjármála- og efnahagsráðherra, á Alþingi í dag. mbl.is/Kristinn Magnússon

Bjarni Benediktsson, fjármála- og efnahagsráðherra, ætlar að vinna með umhverfisráðherra til að uppfæra áætlanir um ofanflóðasjóð og fá til þess auknar fjárheimildir sem til þurfi. 

Þetta staðfesti hann í kjölfar ræðu sinnar á fyrsta þingfundi ársins á Alþingi í svari sínu við fyrirspurn Jóns Steindórs Valdimarssonar, þingmanns Viðreisnar, um fyrirætlanir varðandi sjóðinn.

Bjarni sagðist vera á þeirri skoðunar að óréttlætanlegt væri að kynna til sögunnar skatt sem ætlaður væri til ákveðins verkefnis sem ekki væri nýttur til þess. 

Eiga að rata til síns heima

Staðfesti hann að fjárheimildir fyrir sjóðinn mundu hafa áhrif á ríkissjóð og kvað það án vafa vera ástæðuna fyrir því að sjóðurinn hefði ekki fengið fjármagnið til úthlutunar í gegnum tíðina.

Hann benti þó á að miklar framkvæmdir hefðu þegar átt sér stað í sambandi við ofanflóðavarnir. Sagði hann þær hafa skipt sköpum bæði fyrir líf og mannvirki eins og hefði komið í ljós í snjóflóðunum sem féllu á Vestfjörðum í mánuðinum.

„En við verðum einfaldlega að gera betur,“ sagði Bjarni. „Skattar og gjöld í ákveðnum tilgangi eiga að rata til síns heima.“

Sögulega mörg mál verið afgreidd

Í ræðu sinni kom Bjarni inn á afköst haustþingsins og sagði „sögulega mörg“ mál hafa verið afgreidd á þinginu. 

Benti hann á að frumvarp um lækkun skatta hefði verið eitt þessara mála sem hefðu leitt til þess að skattar hefðu lækkað um níu og hálfan milljarð fyrir árið 2020. 

Þá gagnrýndi hann mikla umræðu um vöxt ríkisútgjalda og sagði að skautað væri framhjá því hvar ríkisútgjöld hefðu helst aukist en það væri að hans sögn í almannatryggingum.

„Við beitum reglum til að tryggja að fjármunir skili sér mest til þeirra sem hafa minnst,“ sagði Bjarni og bætti við að mikill vöxtur væri einnig í framlögum heilbrigðiskerfisins. 

Sagði hann að hátt hlutfall fjármuna til heilbrigðismála færi í að tryggja þeim sem störfuðu innan heilbrigðisstéttarinnar betri laun. Kvað hann minna fara fyrir þeirri umræðu í dag en áður sem benti til bóta.

Sagði hann jafnframt að kaupmáttaraukning landsmanna síðustu ára hefði aukist gríðarlega og sagði lífsgæði á landinu vera í fremstu röð meðal allra þjóða. 

Íslendingar kunni ekki að búa við jafnvægi

Velti Bjarni fram þeirri spurningu í ræðu sinni hvort að Íslendingar kynnu ekki að búa við jafnvægi. 

„Jafnvægi eins og það sem við búum við núna með lágu vaxtastigi og verðbólguviðmið. Vegna þess að sögulega höfum við mátt kynnast því að vera ýmist í kreppu eða spennu. Séu menn að leitast eftir því að komast í spennustigið, þá grunar mig að fljótlega fari menn að tala um hversu eftirsóknarvert það sé að komast í jafnvægið að nýju,“ sagði Bjarni.

Benti hann á það að Ísland greiddi einna hæstu launin innan OECD og sagði það meðal annars gera það að verkum að litlum og meðalstórum fyrirtækjum væri þröngur stakkur sniðinn í rekstri. 

Sagði Bjarni að kallað væri eftir að horft væri til slíka fyrirtækja þar sem flest störf Íslands væru. Þá þyrfti að spyrja hvað hægt væri að gera til að örva að nýju atvinnustarfsemi slíkra fyrirtækja.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert