„Ofboðslegur kjarkur og baráttuandi“

„Það sem ég var hvað ánægðastur með var að þarna …
„Það sem ég var hvað ánægðastur með var að þarna voru ekki bara Flateyringar, þó við séum reyndar öll Flateyringar þessa dagana, þarna var líka fólk úr nágrannasveitarfélögum,“ segir bæjarstjóri Ísafjarðarbæjar. Ljósmynd/Páll Önundarson

„Hann var frábær, en ekki frábær af því að þetta hafi verið einhver endalaus já-kór eða hróp og köll og hlátur, þetta var grafalvarlegur fundur. Hann var mjög tilfinningaþrunginn og þar sem að gerir hann frábæran er að fólk talaði hispurslaust, fólk talaði vestfirsku og sagði nákvæmlega það sem því býr í brjósti,“ segir Guðmundur Gunnarsson, bæjarstjóri Ísafjarðarbæjar, í samtali við mbl.is, en bærinn stendur í kvöld fyrir íbúafundum bæði á Flateyri og á Suðureyri.

Guðmundur ræddi við blaðamann í bílnum á leiðinni frá Flateyri yfir á Suðureyri, þar sem seinni fundurinn hófst kl. 20. „Fólk var reitt, sorgmætt og lýsti vonbrigðum, en umfram allt þá var undirliggjandi ofboðslegur kjarkur og baráttuandi. Ég held að þá sé ég búinn að nota öll lýsingarorðin sem mér detta í hug yfir þennan fund,“ bætir bæjarstjórinn við.

Fólk má aldrei upplifa sig afskipt og einangrað

Hann segir að á fundinum komið fram „margar mjög skiljanlegar spurningar varðandi öryggi þessara varnargarða og vonbrigðin sem fólki finnst það vera að upplifa bæði varðandi ofanflóðavarnirnar og líka kannski það sem að er og var ekki og þarf að vera til staðar í svona samfélagi, til þess að fólk geti brugðist við þegar eitthvað bjátar á. Við megum aldrei hafa samfélögin okkar þannig að fólk upplifi að það sé afskipt og einangrað og eigi sér engar bjargir þótt að það gjarnan vildi.“

Frá Flateyri á föstudaginn. Íbúafundurinn í kvöldinni fór fram í …
Frá Flateyri á föstudaginn. Íbúafundurinn í kvöldinni fór fram í Gunnukaffi í Félagsbæ. mbl.is/Hallur Már

Bæjarstjórinn vísar hér að ofan til áhyggjuradda sem heyrðust á fundinum um skort á aðstöðu til þess að sinna heilbrigðisþjónustu á Flateyri og neyðarbúnaði, hjálpargögnum og slíku, en í þorpunum sem eru innan starfssvæðis Heilbrigðisstofnunar Vestfjarða eru víða svokölluð Læknasel, þar sem hjúkrunarfræðingur eða læknir kemur einn dag í viku og sinnir sjúklingum. Slík þjónusta hefur ekki verið á Flateyri í rúmt ár.

„Auðvitað er fólk er svekkt og fúlt yfir því en ég held líka að fólk skilji alveg að þar eins og annars staðar, ég held að Heilbrigðisstofnun Vestfjarðar upplifi sig oft eins og Flateyringar upplifa sig, að hún sé afskipt, fjársvelt, ekki með tæki og tól og ekki með fjármagn til þess að veita lögbundna þjónustu. Þar liggur rótin, í fjármögnuninni á heilbrigðisstofnuninni. Ég held að það séu allir að reyna að gera sitt besta, það eru allir að reyna að fara sem best með það fé sem þeir fá og það eru allir að reyna að forgangsraða skynsamlega. Við þurfum að ráðast að rót vandans, sem er undirfjármögnun heilbrigðisstofnana úti á landi, svo áratugum skiptir,“ segir Guðmundur.

Vestfirðingar flestir á sama báti

„Maður veit það ekki, ég átti alveg von á því að þetta yrði fjölmennur fundur á Flateyri, en það sem ég var hvað ánægðastur með var að þarna voru ekki bara Flateyringar, þó við séum reyndar öll Flateyringar þessa dagana, þarna var líka fólk úr nágrannasveitarfélögum,“ segir bæjarstjórinn inntur eftir því hvort hann byggist við því að fundurinn á Suðureyri yrði sambærilegur og sá sem fram fór á Flateyri.

Frá íbúafundinum á Suðureyri í kvöld.
Frá íbúafundinum á Suðureyri í kvöld. Ljósmynd/Tinna Ólafsdóttir

„Við erum öll á þessum sama báti, í vel flestum byggðum búum við þessa náttúrúvá, þannig að ég held að það sé bara mjög gott að fólk mæti á þessa fundi til þess að bæði viðra skoðanir sínar og bera fram spurningar en líka til að fá upplýsingar. Ég vona að það verði jafn vel mætt á fundinn á Suðureyri og fólk verði jafn hispurslaust og tali jafn skýra vestfirsku, því það er það sem okkur leggst best,“ sagði Guðmundur.

Fundinn á Suðureyri má sjá í beinu streymi hér að neðan, en einnig verður haldinn svipaður upplýsingafundur á Ísafirði á morgun.



mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert