Helga Vala Helgadóttir þingmaður Samfylkingar efndi til samtals um heilbrigðiskerfið við Svandísi Svavarsdóttur heilbrigðisráðherra í óundirbúnum fyrirspurnatíma á Alþingi í dag. „Er nóg gert? Þarf ekki að viðurkenna ástandið í heilbrigðiskerfinu og bregðast við af meiri alvöru?“ spurði Helga Vala eftir að hafa bent á fjölda brotalama í heilbrigðiskerfinu, sem hún sagði að helst mætti rekja til ónægra fjárframlaga til heilbrigðismála.
„Ég vil biðja hæstvirtan ráðherra um að hlusta á raddir þeirra sem reka hjúkrunarheimilin, sem segjast þurfa að senda veikasta fólkið á Landspítala í sparnaðarskyni. Hlusta á raddir forsvarsmanna heilbrigðisstofnana úti á landi sem þurfa, ef stjórnvöld bregðast ekki við, að loka á þjónustu og jafnvel loka skurðstofum,“ sagði Helga Vala og sagði einnig að samkvæmt nýjustu tölum frá OECD væru Íslendingar ekki að verja jafn miklum hluta landsframleiðslu sinnar til heilbrigðismála og þær þjóðir sem við helst berum okkur saman við.
„Til þess að ræða um heilbrigðismál þá þarf maður að hafa í huga og í fyrirrúmi mikilvægi þess að það sé til stefna í málaflokknum. Það er sem betur fer þannig að það er til stefna sem var samþykkt í júní á síðasta ári og þar naut stefnan stuðnings þingflokks Pírata og þingflokks Samfylkingarinnar,“ sagði Svandís, sem bætti við að þá hefðu þingmenn þeirra flokka talað með þeim hætti að þeir væru sammála um að best væri að fara ekki með heilbrigðismál í skotgrafir, heldur væri betra að um heilbrigðismálin gilti samstaða til lengri framtíðar.
Ráðherra hnýtti ögn í framsetningu Helgu Völu á tölum frá OECD og sagði margar leiðir til þess að líta á tölurnar, sem væru að auki frá 2017. Þó að samanburður OECD-ríkja sýni að Íslendingar verji lægra hlutfalli af landsframleiðslu til heilbrigðismála en ýmsar aðrar þjóðir sé það svo að útgjöld til heilbrigðismála séu hærri á hvern íbúa hér en víða annars staðar til dæmis í Finnlandi. Bætti hún við að frá því að hún tók við sem ráðherra málaflokksins hefðu framlög til heilsugæslunnar aukist um 24% á föstu verðlagi.
Þá svaraði hún því til að sérstakur átakshópur hefði verið settur af stað á föstudaginn síðasta og hafið störf í morgun.
Átakshópnum, sem skipaður er sérfræðingum frá ráðuneytinu og Landspítala, er ætlað að leysa þau vandamál sem hafa verið viðvarandi og komið upp aftur og aftur á bráðamóttöku Landspítala.
Þorsteinn Víglundsson þingmaður Viðreisnar ræddi einnig um heilbrigðismálin við ráðherra í fyrirspurnatímanum og gagnrýndi ríkisstjórnina fyrir að hafa ekki lagt nægilega mikið púður í uppbyggingu hjúkrunarheimila það sem af er kjörtímabili þrátt fyrir fögur fyrirheit.
„Ég spyr, er verið að stýra heilbrigðiskerfinu?“ sagði Þorsteinn. Svandís svaraði honum með því að viðfangsefnin væru miklu brýnni en svo að hægt væri að einbeita sér einungis að uppbyggingu hjúkrunarheimila, það væru önnur verkefni sem þyrfti einnig að sinna, til dæmis heimahjúkrun og dagdvalarþjónusta við aldraða.
„Þannig að já, það er verið að stýra þessu heilbrigðiskerfi,“ sagði ráðherra.