„Við höfum verið að skoða þetta núna í ár varðandi ferðaþjónustu eða menningarstofnun hjá okkur. Við vildum líka kanna hvort það væri einhver annar sem vildi reka húsið sem slíkt – eða búa þar,“ segir Ásgerður Halldórsdóttir, bæjarstjóri á Seltjarnarnesi.
Um helgina var húsið Ráðagerði auglýst til sölu á fasteignavef mbl.is. Seltjarnarnesbær keypti húsið á 100 milljónir króna í byrjun árs 2018. Nýtti bærinn sér forkaupsrétt að húsinu og sagði bæjarstjórinn við það tækifæri að mikil tækifæri gætu leynst þar, til að mynda í menningar- eða ferðatengdri starfsemi. Nú virðist ljóst að ekki verður af þeim áformum.
Í umfjöllun um mál þetta í Morgunblaðinu í dag kemur m.a. fram, að Ráðagerði var byggt á árunum 1880-1885 og er vestasta húsið á Seltjarnarnesi. Það er fallegt tvílyft timburhús sem var endurgert fyrir rúmum tveimur áratugum. Ásett verð nú er 105 milljónir. Í auglýsingu er lofað stórbrotnu útsýni í suður, vestur og austur og er þar engu logið enda er hið vinsæla útivistarsvæði við Gróttu í túnfætinum.