Lögreglan á Suðurlandi býst við bráðabirgðaniðurstöðum úr krufningu á kínversku ferðamönnunum sem fundust látnir á Sólheimasandi í síðustu viku á morgun.
Þetta staðfestir Oddur Árnason, yfirlögregluþjónn hjá lögreglunni á Suðurlandi, í samtali við mbl.is.
Karl og kona, kínverskir ríkisborgarar á þrítugsaldri, fundust látin á Sólheimasandi á fimmtudaginn í síðustu viku. Tilkynnt var um að lík konu hefði fundist skammt frá göngustíg að flugvélarflakinu á Sólheimasandi og ákvað lögregla í kjölfarið að efna til leitar á svæðinu. Við leitina fannst lík karlsins í um 150 metra fjarlægð frá líki konunnar.
Talið er að fólkið hafi orðið úti, en afar slæmt veður var á svæðinu í síðustu viku.
Aðstandendur fólksins eru komnir til landsins og til stóð að ræða við þá í gær til að varpa frekara ljósi á atvik.