Verulega ósáttur við Mehamn-ákæru

Kirkjan í Mehamn í Finnmörk þar sem minningarstund um Gísla …
Kirkjan í Mehamn í Finnmörk þar sem minningarstund um Gísla Þór Þórarinsson fór fram 27. apríl í fyrra eftir harmleik í þessu litla bæjarfélagi við Barentshafið. Hálfbróður hans, Gunnari Jóhanni Gunnarssyni, var birt ákæra í dag sem verjandi hans telur handvömm af hálfu héraðssaksóknaraembættisins. mbl.is/Atli Steinn Guðmundsson

Héraðssaksóknarinn í Troms og Finnmörk í Noregi gaf í dag út ákæru á hendur Gunnari Jóhanni Gunnarssyni þar sem honum er gefið að sök manndráp af ásetningi (n. forsettlig drap) með því að hafa, upp úr klukkan fimm að morgni 27. apríl í fyrra, farið á heimili hálfbróður síns, Gísla Þórs Þórarinssonar heitins, í Mehamn í Finnmörk með haglabyssu af hlaupvídd 12 ga. þar sem þeir hálfbræður hafi tekist á um vopnið með þeim afleiðingum að tvö skot hlupu af því og hafnaði annað þeirra í vinstra læri Gísla Þórs með þeim afleiðingum að honum blæddi út á skömmum tíma.

Í öðrum lið ákærunnar er Gunnari gefið að sök að hafa haft í hótunum við hálfbróður sinn dagana fyrir andlát hans og eins fyrrverandi heitkonu sína og barnsmóður, Elenu Undeland. Tiltekur ákæran sérstaklega Snapchat-myndskeið sem Gunnar sendi hálfbróður sínum og lét þar þau orð falla að honum þætti Gísli Þór viðbjóðslegur og hann hefði í hyggju að ráða hann af dögum, eða eins og það er sett fram á norsku í ákærunni „Jeg skal fokking gjøre det fokking slutt på deg, du er motbydelig.“

Alls er ákæran í sex liðum og er Gunnar í þeim fjórum sem eftir standa ákærður fyrir húsbrot á heimili Gísla Þórs, brot á nálgunarbanni gagnvart honum, að hafa tekið bifreið hans ófrjálsri hendi eftir átök þeirra og ekið henni undir áhrifum áfengis og amfetamíns þegar hann fór af vettvangi.

Segir fyrra skotið ekki hafa hlaupið af við átök

„Það kemur mjög flatt upp á mig að ákært sé fyrir manndráp af ásetningi og ekki síður að lesa þann grundvöll sem héraðssaksóknari setur fram með því ákæruatriði,“ segir Bjørn Gulstad, verjandi Gunnars Jóhanns, í samtali við mbl.is í kvöld.

Gulstad segir það vissulega rétt að hálfbræðurnir hafi tekist á um haglabyssuna en fyrsta skotið hafi þó hlaupið af byssunni áður en átök þeirra hófust. Gísli Þór hafi þá gripið til vopnsins og Gunnar þá tekið viðbragð og skotið hálfbróður sinn í lærið í ógáti. Síðara skotið hafi svo hlaupið af við sjálf átök hálfbræðranna sem þá hófust og hafnað í vegg á heimilinu og því sé það fullkomlega órökrétt af hálfu ákæruvaldsins að ákæra fyrir manndráp af ásetningi þegar augljóst sé að um manndráp af gáleysi hafi verið að ræða, svo sem Gunnar hafi haldið fast við í öllum sínum framburði hingað til.

Heimili Gísla Þórs í Mehamn. Þangað hélt Gunnar Jóhann með …
Heimili Gísla Þórs í Mehamn. Þangað hélt Gunnar Jóhann með hlaðna haglabyssu í apríl í fyrra. Að sögn verjanda hans gerir hann sér vel ljóst hvaða áhættu hann tók með þessari heimsókn en heldur fast við þann framburð sinn að hafa aðeins ætlað að skjóta hálfbróður sínum skelk í bringu. mbl.is/Atli Steinn Guðmundsson

„Mér finnst þó jákvætt að ákæran byggi þó, hvað atburðarás snertir, á þeim skýringum sem ákærði hefur gefið,“ segir Gulstad enn fremur og bætir því við að út frá mati hans á sönnunargögnum sé það alvarleg yfirsjón af hálfu ákæruvaldsins að gefa Gunnari að sök manndráp af ásetningi.

Gerði sér afleiðingarnar ljósar

„Þungamiðjan í þessum réttarhöldum [sem hefjast mánudaginn 23. mars við Héraðsdóm Vadsø] verða mörkin á milli manndráps af ásetningi og manndráps af gáleysi,“ segir Gulstad, „var þetta gert með vilja eða var þetta óvart? Fjöldi sönnunargagna í málinu styður þann framburð Gunnars að hann hafi ekki haft þann ásetning að skjóta hálfbróður sinn, þetta sést til dæmis af skotvinklinum og fjarlægð skotvopnsins þegar fyrra skotið hljóp af,“ segir hann.

Hvaða afstöðu tekur Gunnar Jóhann sjálfur þá til ákærunnar?

„Hann lýsir sig sekan um manndráp af gáleysi og viðurkennir að háttsemi hans hafi verið svo óábyrg að réttlæti að ákært sé fyrir gáleysi. Hann áttar sig á þeirri áhættu sem hann hafi tekið með því að fara á heimili hálfbróður síns með hlaðna haglabyssu og gerir sér ljóst að afleiðingar þess gátu orðið banvænar,“ svarar Gulstad.

Bjørn Gulstad, verjandi Gunnars Jóhanns, segir ákæruna hafa komið verulega …
Bjørn Gulstad, verjandi Gunnars Jóhanns, segir ákæruna hafa komið verulega flatt upp á sig, öll rök hnígi að því að ákæra fyrir manndráp af gáleysi þar sem ásetningur skjólstæðings hans hafi aldrei staðið til þess að ráða Gísla Þór hálfbróður sínum bana. Ljósmynd/Lögmannsstofan Sjødin, Meling & Co

Á hverju hyggst hann þá byggja málsvörn skjólstæðings síns fyrir héraðsdómi í mars?

„Við munum byggja á því að þrátt fyrir að ákærði hafi verið í andlegu ójafnvægi í kjölfar þess sem hann upplifði sem sviksemi af hendi hálfbróður síns og í kjölfar ýfinga við barnsmóður sína hafi honum ekki gengið annað til ætlunar þegar hann hélt að heimili hálfbróður síns en að skjóta honum skelk í bringu og fá hann ofan af því að hafa frekara samneyti við fyrrverandi unnustu sína [Gunnars]. Hann ætlaði sér ekki annað en að sýna að honum væri full alvara,“ útskýrir verjandinn.

Hefur haft nægan tíma til að hugleiða

Gulstad segir Gunnar þegar hafa brugðist við og gert allt sem í hans valdi stóð til að bjarga lífi bróður síns. Hann hafi með aðstoð annars Íslendings, sem staddur var í húsi skammt undan og sat á tímabili í gæsluvarðhaldi fyrir meinta aðild að málinu sem síðar reyndist ekki grundvöllur fyrir, haft samband við neyðarlínu, en hinn Íslendingurinn þar haft orð fyrir þeim þar sem hann hafi talað betri ensku.

Segir Gulstad það munu koma fram við vitnisburð hins Íslendingsins fyrir rétti hvað þeim Gunnari fór á milli strax eftir harmleikinn en þar hafi Gunnar lýst atburðarásinni nákvæmlega. Segir verjandinn þann vitnisburð þungavigtaratriði í málsvörninni.

Aðalmeðferð málsins hefst fyrir Héraðsdómi Vadsø mánudaginn 23. mars.
Aðalmeðferð málsins hefst fyrir Héraðsdómi Vadsø mánudaginn 23. mars. mbl.is/Atli Steinn Guðmundsson

„Gunnar gerir sér fullkomlega ljóst að hver málalokin urðu var sennileg afleiðing þeirrar ákvörðunar hans að fara heim til hálfbróður síns með hlaðið skotvopn. Hann hefur haft nægan tíma til að hugleiða það sem gerðist og nú bíður hann þess bara að koma fyrir réttinn og fá að gera þar grein fyrir því sem raunverulega gerðist og hvers vegna það gerðist,“ segir Bjørn Gulstad verjandi að lokum.

Ekki náðist í Torstein Lindquister héraðssaksóknara við vinnslu fréttarinnar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert