Gáfu 1.500 raddsýni fyrir hádegi

Nemendur á unglingastigi í Öldutúnsskóla í Hafnarfirði létu hendur standa fram úr ermum í morgun þegar þeir lögðu til 1.500 raddsýni í gagnasafn Samróms. Mikilvægt er að ná fjölbreyttum sýnum svo talgreiningarforrit framtíðarinnar verði sem fullkomnust.

Samrómur er verkefni sem er unnið að miklu leyti frá Háskólanum í Reykjavík í samstarfi við Almannaróm í samræmi við máltækniáætlun sem hefur hefur verið mörkuð fyrir þjóðina. Öldutúnsskóli er fyrsti skólinn sem tekur þátt í verkefninu með þessum hætti og var það að frumkvæði íslenskukennarans Agnesar Skúladóttur. Hún segir mikilvægt að virkja krakkana í slíkum verkefnum en ekki síður að yfirfæra íslenskuna í stafrænt umhverfi.

Í myndskeiðinu er fylgst með lestrinum sem er oft ansi kómískur þar sem lesa þarf setningar úr íslenskum bókum sem getur verið erfitt að skilja þegar þær eru rifnar úr samhengi. Þá er rætt við nokkra nemendur, Agnesi og David Erik Mollberg, verkefnisstjóra hjá Samrómi og meistaranema í máltækni, en það er námsbraut sem er samstarfsverkefni HR og HÍ og tvinnar saman forritun og málfræði.

Í kjölfarið verður farið í sem flesta skóla til að safna fleiri raddsýnum en lokamarkmið Samróms er að safna 500 þúsund lesnum setningum. 200 þúsund frá fullorðnum, 200 þúsund frá 18 ára og yngri og 100 þúsund sýnum frá þeim sem hafa íslensku sem annað mál.

Almenningur er hvattur til að leggja verkefninu lið með því að fara inn á vef Samróms og lesa inn setningar eða yfirfara lestur annarra.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert