„Ég tel, þegar kemur að rafmagnsframleiðslu og loftslagsmarkmiðum, að við eigum að einbeita okkur að orkuskiptum,“ segir Guðmundur Ingi Guðbrandsson, umhverfis- og auðlindaráðherra, þegar hann er spurður að því hvort ákvæði draga að lögum um hálendisþjóðgarð um að takmarka möguleika á nýjum virkjunum þar samrýmist markmiðum í loftslagsmálum.
Margar umsagnir bárust um frumvarpið. Í sameiginlegri umsögn Samtaka atvinnulífsins og Samtaka iðnaðarins um frumvarpsdrögin er minnt á að samkvæmt samningum sem Ísland hafi gert sé losun frá tilteknum iðnaði talin fram gagnvart alþjóðasamningum um loftslagsmál með Noregi og ríkjum Evrópusambandsins.
Það þýði að losun fyrirtækja er samevrópsk og tilheyrir öllum ríkjunum sameiginlega en ekki Íslandi sérstaklega. Fyrirtæki sem starfa hér á landi og nýta endurnýjanlega orku dragi því úr notkun kola, olíu og jarðgass sem knýja myndi þessa starfsemi annars staðar í Evrópu, að því er fram kemur í umfjöllun um mál þetta í Morgunblaðinu í dag.