Deildu um það hvort málið væri umdeilt

Guðmundur Ingi Guðbrandsson umhverfisráðherra.
Guðmundur Ingi Guðbrandsson umhverfisráðherra. mbl.is/Kristinn Magnússon

Til stendur að leggja fram frumvarp um Hálendisþjóðgarð á vorþingi og að það verði afgreitt fyrir þinglok. Þetta sagði Guðmundur Ingi Guðbrandsson umhverfisráðherra á Alþingi í dag þar sem hann svaraði spurningum frá Gunnari Braga Sveinssyni, þingflokksformanni Miðflokksins, um málið.

Gunnar Bragi sagði málið umdeilt en ráðherra sagðist telja að lögð hefði verið áhersla á að koma til móts við gagnrýnisraddir. Breið samstaða væri um það á Alþingi. Fulltrúar allra flokka fyrir utan Miðflokkinn hefðu skrifað undir skýrslu þverpólitískrar nefndar um málið. „Það segir mér að það er samstaða um málið hér á þingi. Það er samstaða um að koma því áfram.“

„Þetta er stórt og mjög mikilvægt mál. Þetta er mál sem mun auka samkeppnishæfi Íslands. Þetta er mál sem mun auka störf úti í byggðunum. Þetta er mál sem mun efla ferðaþjónustu úti um allt land og þetta er mál sem mun auka náttúruvernd í landinu, ekki síst að vernda óbyggð víðerni, þannig að þetta er vissulega mál sem sá sem hér stendur leggur mikið upp úr,“ sagði umhverfisráðherra enn fremur.

Gunnar Bragi Sveinsson, þingflokksformaður Miðflokksins.
Gunnar Bragi Sveinsson, þingflokksformaður Miðflokksins. mbl.is/Hari
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert