„Mig hefur lengi langað til að skapa tónverk sem fjallar um það að horfa út um gluggann minn hérna. Þetta er svo heillandi og síbreytilegt sjónarspil,“ segir breski tónlistarmaðurinn Damon Albarn. Hann þagnar og horfir út í éljakófið sem byrgir þá stundina sýn í hvassviðrinu sem lemur á húsi hans í Staðahverfinu nyrst í Reykjavík. „Sjónarhornin eru sífellt að breytast hérna,“ bætir hann svo við hugsi. „Stundum er loftið ótrúlega tært og kyrrt – og Snæfellsjökull beint fyrir framan mig! Þarna,“ segir hann og bendir norður yfir Faxaflóann. „Hann blasir oft við með öllum sínum smáatriðum. Stundum finnst mér hann vera svo nærri að það er eins og toppurinn gnæfi yfir okkur hér. En í önnur skipti, eins og núna, þá byrgir veðrið sýn, snjór eða regn. Gluggarnir hér eru eins og linsur sem beinast að heillandi náttúrunni.“
Damon Albarn kom fyrst til Íslands fyrir tæpum aldarfjórðungi, árið 1996, á hátindi vinsælda hljómsveitarinnar Blur sem hann leiddi sem söngvari og var orðinn heimsþekktur fyrir. Hann var fyrst einn á ferð og kynnti sér næturlífið, eins og fjallað var þá um í fréttum. Skömmu síðar var Blur byrjuð að hljóðrita nýja plötu í London en meðlimirnir komu síðan allir til Reykjavíkur og luku hér upptökum á fimmtu breiðskífu sveitarinnar, sem var einfaldlega nefnd eftir henni, Blur. Albarn kveðst hafa bundist landinu sterkum böndum á þessum tíma og skömmu seinna festi hann sér lóð og hóf að byggja hús hér í úthverfi borgarinnar, með þessu tilkomumikla útsýni yfir ströndina og hafið, í átt að Snæfellsjökli og Esju. Og þetta útsýni er kveikjan að og efniviðurinn í nýju tónverki listamannsins, The Nearer the Fountain, More Pure the Stream Flows, sem hann mun flytja ásamt stórri hljómsveit, með strengjum og blásurum, í rómuðum tónleikasölum í nokkrum evrópskum stórborgum Evrópu í vor. Þegar tilkynnt var um þá tónleika seldist strax upp á þá alla, enda viðburður að Damon Albarn leggi upp í ferð með nýtt og spennandi tónverk. Í dag er síðan upplýst um lokatónleika ferðalagsins, en þeir verða í enn einni rómaðri tónleikahöll – sem stendur við Faxaflóann aðeins nokkru vestar en tónverkið var samið, í Eldborgarsal Hörpu 12. júní.
Þegar ég sæki Damon Albarn heim í útjaðri Reykjavíkur er komið hádegi og hlé hefur verið gert á hljómsveitaræfingu í stofu listamannsins. Ellefu manna strengja- og blásarasveit, auk tækniliðs og upptökumanns, hefur undanfarna daga verið að æfa undir stjórn útsetjarans og hljómsveitarstjórans André de Ridder hluta úr þessu nýja tónverki Albarns. Sveitin er aðallega skipuð breskum tónlistarmönnum en einnig nokkrum íslenskum. Stemningin er heimilisleg þar sem listamennirnir sitja í rúmgóðri og hlýrri stofunni og snúa allir að flennistórum gluggum með útsýni til hafsins, sem hverfur af og til í éljahryðjurnar. Þar úti stígur hópur hrafna loftdans og virðast þeir njóta þess að leika í veðurhamnum.
Þetta er í þriðja sinn sem tónlistarmenninir koma til landsins og æfa verkið í nokkra daga heima hjá Albarn. Við einn gluggann er píanó tónskáldsins og á því bunki af textablöðum sem hann er að vinna í. Þegar tónleikaröðin var kynnt, að Albarn myndi flytja ásamt stórri hljómsveit nýtt verk í tónleikahöllum á borð við Fílharmóníuna í París, Barbican í London og Bozar í Brussel, var sagt að það væri samið undir áhrifum af einstakri náttúru Íslands, landi miðnætursólarinnar. Þar mætti finna jökla, eldfjöll, hveri, tignarleg fjöll og einstakt hálendi, í landi á mótum Norður-Ameríku og Evrópu, og þar væri uppspretta verks Albarns, sem hefði dvalið reglulega á Íslandi í hátt í þrjá áratugi.
Við Albarn ræðum um verkið nýja á neðri hæð hússins, þar sem tveimur stólum hefur verið komið fyrir við lítið borð í svefnherbergi hans – og eins og í stofunni uppi snúa stólarnir að gluggunum og útsýninu sem hann kveðst aldrei fá nóg af.
„Þegar ég er hér í húsinu hef ég nær alltaf dregið frá, svo ég geti fylgst með náttúrunni, sumar sem vetur,“ segir Albarn og bætir við að sér finnist þessi tími árs líka hrífandi hér, þegar nóttin er svo löng og sólin lágt á himni.
Hann segist lengi hafa verið heillaður af náttúrunni hér og líka alls kyns þjóðsögum og ævintýrum sem henni tengjast. Hann nefnir sem dæmi að fyrir mörgum árum hafi hann fyrst hrifist af Bjarnafossi við Búðir á Snæfellsnesi, en þá hafi hann verið á ferð að vetrarlagi og íslenskur kunningi sagt sögur af skessu sem byggi í fossinum og verum sem kæmu þar úr hafinu. Þegar umboðsmaður Albarns spurði hann fyrir ekki svo löngu hvort það væri eitthvert ögrandi verkefni sem hann virkilega langaði að hella sér í, þá sagðist hann lengi hafa gengið með þann draum að skapa verk um útsýnið frá gluggunum sínum hér í Reykjavík. Og það mætti krydda með sögum eins og þeim sem hann heyrði á sínum tíma á Snæfellsnesi. „Titillinn á verkefnið kom úr ljóðinu „Love and Memory“ eftir John Clare og ég gaf umboðsmanninum hann með stuttri lýsingu sem hann gæti notað til að selja miða á tónleikaröðina,“ segir Albarn og bætir brosandi við að þegar hafi miðarnir á þá alla selst upp – „fyrir utan á tónleikana hér í Hörpu!“ – og hann var ekki enn farinn að festa nótu á blað.
„Ég hef komið eins mikið hingað og ég hef getað,“ segir Albarn, sem er annars búsettur ásamt fjölskyldu sinni í London. „Ég var hér fimm eða sex sinnum á síðasta ári. Ég hef verið að semja hér, og stundum með aðra tónlistarmen með mér og ég hef reynt að fá þá til að fanga með mér þær furðulegu tilfinningar sem kvikna við að horfa hér út,“ segir hann með þungri áherslu á orðin furðulegu tilfinningar.
„Í dag heyrum við heldur betur í veðrinu, enda stormur úti, en oft er hér algjör þögn. Fólk bregst við þessum aðstæðum á áhugaverðan hátt og þegar þau leika á hljóðfærin hvet ég þau til að leika og túlka náttúruna og landslagið fyrir utan, að leika eins og smáfuglarnir flögra úti og horfa hér út á Hrosshólma og Geldinganes, og tjá dans hrafnanna. Undanfarið hef ég gefið hröfnunum að éta hér úti og þeir eru ótrúlegir – þvílíkar kúnstir! Það er ágætt að venja þá við fyrir myndbandið sem verður tekið hér og mun fylgja tónlistinni á sviðinu. Hrafnarnir hafa í hvassviðrinu beitt öllum sínum hæfileikum við að steypa sér og snúast; þeir eru algjörir flugmeistarar.
Að þessu sinni var ég fyrst einn hér í nokkra daga áður en hin komu og hef notið þess að vakna snemma að semja tónlist og skrifa. Það hefur gengið vel að vinna hér í rökkrinu. Ég hef verið að velta fyrir mér því hugarástandi sem ég hef dottið í, og get líkt því við vissa melankólíu, ekki beint þunglyndi, en það er stutt þar á milli, í raun bara hvöss hnífsegg. Í melankólíunni finnur maður fyrir gangi hæða og lægða yfir landinu og nær að tengja við undirmeðvitundina. Þar er ég staddur í skrifunum, á milli heima...“
Hann þagnar og ég spyr hvort hann sé enn að móta tónverkið og textana, þótt byrjað sé að æfa.
„Já, ég er kominn með yfirsýn yfir efnið og nota landslagið í verkið og hvernig það breytist í sífellu. Stundum breytist það á fimm mínútna fresti. Sjáðu bara Esjuna,“ segir hann og bendir á snjóhvítt borgarfjallið sem er að mestu hulið skýjum. „Það er skrýtið hvaða form maður getur séð út úr fjallshlíðinni þegar það er svona mikill snjór á því. Sjáðu þarna nærri fjallsrótunum, þar eru eins og þrjár manneskjur og úlfur! Og uppi á þessum fjallshrygg þarna, sem varla sést núna, finnst mér oft eins og sé einhvers konar borgarrúst. Formin í Esjunni eru sífellt að breytast og það finnst mér heillandi – maður skynjar það vel á mörkum meðvitundar og ómeðvitaðrar skynjunar. Á mótum líkama og sálar.“
Þegar ég spyr hvernig hann fari að því að flytja hugsanir og skynjanir sem þessar í tónlistina brosir Albarn og segist varla geta svarað því. „En ég reyni að leysa það, meðal annars með ómstríðu (e. dissonance) í tónmálinu, sem er nokkuð sem ég hef lengi haft áhuga á en getur verið erfitt að nota í popptónlist. Allt popp sprettur af tilfinningu, popp er einfalt og tilfinningin lyftir því á flug. Þetta verk byggir líka á vissum spuna og það krefst mikillar einbeitingar af hendi tónlistarmannanna, allan tímann. Ég stíg inn og út úr tónlistinni með söngnum og mér finnst sem nokkrir mjög áhugaverðir söngvar hafi verið að fæðast. Eitthvað sem ég býst jafnvel við að náist aldrei að hljóðrita fyllilega, enda býst ég ekki við því að við munum taka þetta verk upp fyrr en undir lok tónleikaferðarinnar og þá í lifandi flutningi. Gestir munu fyrir vikið ekki þekkja neitt af tónlistinni þegar þeir mæta á tónleikana.“
Það hefur rofað til og skyndilega sést langt út á hvítfyssandi haf. Albarn hefur á orði að þessi víðátta sé á vissan hátt sinfónísk. Lítur hann á þetta nýja verk sem sinfóníu?
„Ætli rétta heitið sé ekki tónaljóð. Án þess að ég leggi neitt upp úr skilgreiningunni. En ég hef lengi verið að kvikmynda upplifanir mínar af náttúrunni hérna og það efni verður notað við flutninginn, ásamt öðru myndefni. Einar Örn [Benediktsson] vinnur til dæmis að frábærum teikningum með fígúrunum sínum og svo birtist líka huldufólkið í klettunum hérna rétt fyrir utan. Á sínum tíma urðum við að ganga til samninga við það áður en við byrjuðum að byggja þetta hús. Og ég legg mig fram við að færa því litla gjöf í hvert sinn sem ég kem og hvet aðra sem dveljast í húsinu til að gera slíkt hið sama.“
Nú eru tónlistarmennirnir farnir að hita upp á efri hæð hússins og Albarn segir þeim eiga eftir að fjölga og verða um 25 í allt á tónleikunum. „Og þetta verður eitt samfellt verk – nema ég ákveði annað seinna,“ segir hann glottandi og viðurkennir að hann verði sífellt að ögra sér og takast á við nýja og spennandi hluti í listinni. Hann gleðst yfir samvinnunni við André de Ridder, sem hann hefur áður unnið með að hljóðritunum, meðal annars í Damaskus og í Malí fyrir hljómsveitir sem Albarn er í. „Ég vissi að hann væri hárrétti maðurinn í þetta verkefni, hann hefur svo sterka klassíska fagurfræði og getur umbreytt mínum abstrakt hugmyndum miklu hraðar í nótur en ég gæti skrifað þær niður. Ég get á meðan spunnið og ofið söngvana saman við grunnana – ég hef aldrei unnið svona áður og finnst það mjög gaman. Og í orðunum skapa ég mitt eigið landslag, út frá þessu sem ég hugleiði út frá,“ segir hann og bendir út í náttúruna um leið og við stöndum upp og göngum til móts við hljómsveitina í stofunni. Albarn stoppar þar og segir að nú hafi hann komið til Íslands í nær aldarfjórðung og hafi séð miklar breytingar eiga sér hér stað. „Ég man til dæmis eftir Bláa lóninu þegar það var bara einhver kofi þar. En þegar ég kem smell ég bara inn í íslensku rútínuna mína og kann því vel.
Ég hef alltaf notið þess að koma til Íslands en það er ekki fyrr en nú upp á síðkastið sem ég hef farið í að skilgreina hvað það er sem hrífur mig með svo áhrifaríkum hætti. Lífið hér er eins og brunnur sem ég eys nú úr. Ég get glaðst yfir svo mörgu, bara við að horfa hér út um gluggann. Og svo er Snæfellsjökull þarna úti, sú mikilfenglega skepna. Það er sláandi að sjá alla leið hingað yfir flóann hvernig hann er að skreppa saman. En útsýnið er glæsilegt og í lok tónleikaferðarinnar munum við flytja verkið hér aðeins vestar, þar sem útsýnið er næstum því það sama,“ segir hann og bendir í átt að Hörpu handan Geldinganessins. „Þetta er íslenska verkið mitt og auðvitað verðum við líka að flytja það hér! Annað kæmi ekki til greina. Það er ljóð um líf mitt hér, nákvæmlega hér,“ segir hann og bendir á gólfið við fætur sér.
Forsala á flutning Damons Albarn og hljómsveitar í Hörpu á The Nearer the Fountain, More Pure the Stream Flows hefst 30. janúar kl. 10 með skráningu á vefnum sena.is/postlistar. Miðasala hefst síðan á hádegi daginn eftir, á tix.is/damon.
Damon Albarn er rúmlega fimmtugur og hlaut fyrir þremur árum OBE-orðu úr hendi Bretadrottningar, fyrir mikilsverð tónlistarstörf.