Vegagerðin og verkfræðistofan Mannvit leggja til að tvöföldun Reykjanesbrautar við Álverið í Straumsvík verði í núverandi legu vegarins. Sá kostur verði valinn til frekari úrvinnslu enda ódýrastur. Umræddur kafli liggur milli Hvassahrauns og gatnamóta við Krýsuvíkurveg.
Þarna hafa orðið nokkur alvarleg umferðarslys á undanförnum árum. Nú síðast lét pólskur maður lífið þegar fólksbifreið og snjóruðningstæki skullu saman 12. janúar sl. í Straumsvík.
Í samgönguáætlun er gert ráð fyrir því að fé verði sett í verkefnið Krýsuvíkurvegur-Hvassahraun á öðru tímabili, þ.e. árin 2025-2029. Í viðtali við Morgunblaðið 17. janúar sl. sagði Sigurður Ingi Jóhannsson samgönguráðherra að hagkvæmast væri að breikka Reykjanesbraut í núverandi vegstæði og mætti þá hugsanlega flýta framkvæmdum, þannig að þær gætu hafist eftir tvö ár í stað sex.
Fulltrúar Hafnarfjarðarbæjar funduðu með Vegagerðinni á föstudag vegna málsins. Var það fyrsti fundurinn um þessa framkvæmd. Frekari fundahöld eru framundan að sögn Rósu. Stefnt er að því að Hafnarfjarðarbær eigi fund með fulltrúum álversins í Straumsvík á morgun, föstudag.