Flugmenn Icelandair verða í sumar um 100 færri en var gert ráð fyrir. Þar ræður að Boeing 737 MAX-þotur félagsins verða áfram kyrrsettar og komast ekki í notkun fyrir háönn sumarsins, eins og greint var frá í vikunni.
Félagið verður með 41 vél í notkun í sumar í stað 46 í fyrra. „Þetta hefur ekki gerst hjá okkur í 10 ár að það séu ekki allir flugmenn Icelandair í vinnu yfir sumartímann. Þetta sýnir hve stórt vandamálið er í tengslum við þessa kyrrsetningu,“ segir Örnólfur Jónsson, formaður Félags íslenskra atvinnuflugmanna.
Menn í stéttinni hafi þó áfram tiltrú á flugvélum Boeing en kyrrsetningarmálið allt sé þó mikill álitshnekkir fyrir framleiðandann, að því er fram kemur í umfjöllun um mál þetta í Morgunblaðinu í dag.