Haraldur Stefánsson, fv. slökkviliðsstjóri á Keflavíkurflugvelli, lést á nýrnadeild Landspítalans á Hringbraut sl. miðvikudag, 83 ára að aldri. Haraldur var fæddur í Reykjavík 22. janúar 1937, sonur Þuríðar Stefánsdóttur og Stefáns Haraldar Jónssonar.
Uppeldisfaðir Haraldar var Sigurður Sveinsson, verkstjóri hjá Ölgerð Egils Skallagrímssonar. Systkini Haraldar, sammæðra, eru Elín Sigurðardóttir og Sigurður Sigurðsson. Samfeðra eru Kristín, d. 2015, Sigurjón og Sigríður.
Haraldur ólst upp í Þingholtunum í Reykjavík. Eftir útskrift úr Gagnfræðaskóla Austurbæjar hóf Haraldur störf hjá Ölgerð Egils Skallagrímssonar. Meðfram því starfi stundaði hann flugnám hjá Flugskólanum Þyt. Árið 1955, þegar skammt var liðið á flugnámið skall á verkfall sem reyndist örlagavaldur í lífi hans og gerði það að verkum að hann lagði námið á hilluna og sótti um starf á Keflavíkurflugvelli, þar sem verkfallið náði ekki til.
Flugvallarsvæðið varð að vinnusvæði Haraldar næstu 50 árin. Fyrsta starf hans fólst í að sópa gólf í mötuneytinu. Síðan réði hann sig sem sjúkraflutningamann hjá flughernum. Um vorið 1956 hóf Haraldur störf hjá Slökkviliði Keflavíkurflugvallar, sem rekið var af varnarmálaráðuneyti Bandaríkjanna. Það ár voru fimm íslenskir starfsmenn fengnir þar til starfa í stað Bandaríkjamanna.
Haraldur tók við starfi slökkviliðsstjóra árið 1986 við skyndilegt fráfall Sveins Eiríkssonar. Haraldur stýrði slökkviliðinu til ársins 2005. Slökkvilið Keflavíkurflugvallar hefur fengið fjölmörg verðlaun og viðurkenningar undir hans stjórn.
Haraldur var sæmdur riddarakrossi hinnar íslensku fálkaorðu árið 2003. Frá 1975 starfaði hann innan Frímúrarareglunnar.
Eftirlifandi eiginkona Haraldar er Erla Ingimarsdóttir, f. 1938. Börn þeirra eru Ragnar, Sólveig Jóhanna, Haraldur og Ingibjörg María. Barnabörnin eru níu og barnabarnabörnin fimm.