Andlát: Magnús H. Sigurjónsson

Magnús Heiðar Sigurjónsson
Magnús Heiðar Sigurjónsson

Magnús Heiðar Sigurjónsson, fyrrverandi framkvæmdastjóri héraðsnefndar Skagafjarðar, verslunarstjóri og bæjarfulltrúi á Sauðárkróki lést á Heilbrigðisstofnun Norðurlands á Sauðárkróki 21. janúar sl.

Magnús fæddist 24. júlí 1929 í Árnesi í Lýtingsstaðahreppi í Skagafirði, sonur hjónanna Sigurjóns Helgasonar og Margrétar Magnúsdóttur. Hann ólst upp í foreldrahúsum, fyrst í Árnesi og síðar á Nautabúi. Lauk grunnskóla sem á þeim árum var farskóli, stundaði viðbótarnám hjá sóknarpresti sveitarinnar og í bréfaskóla SÍS. Hann lauk verslunarprófi frá Samvinnuskólanum í Reykjavík og námi við bændadeild Bændaskólans á Hólum.

Magnús var eina vertíð í Vestmannaeyjum og stundaði vinnu við jarðvinnslu og mælingar hjá Ræktunarsambandi Skagfirðinga meðan á skólagöngu stóð og nokkru lengur. Hann starfaði hjá Kaupfélagi Skagfirðinga, fyrst við skrifstofustörf og síðar verslunarstörf, varð deildarstjóri byggingavörudeildar félagsins þegar hún var stofnuð 1957 og síðan verslunarstjóri Skagfirðingabúðar þegar hún tók til starfa árið 1983 og fram að 100 ára afmæli kaupfélagsins 1989. Eftir það tók Magnús við starfi framkvæmdastjóra Héraðsnefndar Skagfirðinga sem þá var nýlega stofnuð. Gegndi hann því starfi þar til sveitarfélagið Skagafjörður var stofnað laust fyrir síðustu aldamót.

Magnús tók þátt í stjórnmálum og sat um 12 ára skeið í bæjarstjórn Sauðárkóks og var forseti bæjarstjórnar um tíma.

Eiginkona Magnúsar var Kristbjörg Guðbrandsdóttir, f. 15. júní 1934, d. 3. desember 2009. Þau sáust fyrst á dansleik í Varmahlíð fyrsta vetrardag 1952, hún þá 18 ára og hann 23 ára. Þau giftust tveimur árum síðar og bjuggu alla tíð á Sauðárkróki. Börn Magnúsar og Kristbjargar eru Guðbrandur, Sigurjón og Heiðdís Lilja.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka