Laun á almennum vinnumarkaði höfðu síðastliðið haust hækkað um rúmlega 41% frá ársbyrjun 2015. Þá hafa laun á almennum vinnumarkaði hækkað um 4% frá mars í fyrra en um 1,7% hjá hinu opinbera skv. nýjum tölum Hagstofunnar.
Þá kemur fram í tölum Eurostat, hagstofu ESB, að útborguð laun á Íslandi hækkuðu um 38,7% mælt í evrum milli 2015 og 2018 en um 2,7% að meðaltali hjá 28 ESB-ríkjum. Launin hækkuðu því mun meira á Íslandi en á það ber að líta að krónan styrktist á tímabilinu
Yngvi Harðarson hagfræðingur segir mikla hækkun raunlauna umfram þjóðarframleiðslu á hvern starfandi landsmann ekki vera sjálfbæra til lengdar. Einhvers konar leiðrétting þurfi að koma til. Til dæmis gengislækkun, að því er fram kemur í umfjöllun um mál þetta í Morgunblaðinu í dag.