Stjórnendur Rio Tinto (RT) hafa ákveðið að verksmiðja fyrirtækisins í Straumsvík verði ekki keyrð á fullum afköstum í ár. Þannig muni framleiðslan nema 184 þúsund tonnum á þessu ári en til samanburðar skilaði verksmiðjan 212 þúsund tonnum af áli á árinu 2018.
Mikil frávik urðu í starfseminni á árinu 2019 þegar tæknilegir örðugleikar urðu til þess að slökkva þurfti á einum af þremur kerskálum verksmiðjunnar í júní síðastliðnum. Frá þeim tíma hefur verksmiðjan ekki verið keyrð á fullum afköstum.
Ákvörðun RT um samdrátt í framleiðslunni hefur áhrif á tekjur Landsvirkjunar. Heimildir Morgunblaðsins herma að vegna minni raforkunotkunar í Straumsvík verði fyrirtækið af 20 milljóna dollara tekjum, jafnvirði 2,5 milljarða króna.
Sömu heimildir herma að RT hafi einhliða heimild til þess að draga með þessum hætti úr raforkukaupunum. Fyrirtækið er annar stærsti kaupandi raforku af Landsvirkjun á eftir Alcoa-Fjarðaáli á Reyðarfirði. Hefur notkun RT numið um fjórðungi alls þess rafmagns sem Landsvirkjun framleiðir.