Isavia, sem rekur flugvöllinn í Keflavík, er með tilbúna viðbragðsáætlun vegna svonefndrar kórónaveiru í Kína sem breiðst hefur út til nokkurra landa á síðustu dögum. Ekki er þó talin þörf á að virkja slíkan viðbúnað að svo stöddu og ekki víst að til þess þurfi að koma.
Þrettán borgir í Kína eru í sóttkví, en þar búa um 40 milljónir manna. Alls hafa 26 látist af völdum veirunnar, sem veldur alvarlegri lungnasýkingu. Vitað er um meira en 800 staðfest tilfelli.
Sóttvarnayfirvöld hér á landi fylgjast grannt með fréttum af veirunni. Hefur Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir í samvinnu við almannavarnadeild ríkislögreglustjóra hafið vinnu í samræmi við fyrirliggjandi viðbragðsáætlanir um alvarlega smitsjúkdóma. Ferðamálastofa verður embætti landlæknis innan handar við að koma upplýsingum um veiruna og aðgerðir gegn henni til erlendra ferðamanna hér á landi, að því er segir í umfjöllun um mál þetta í Morgunblaðinu í dag.