Sektir mættu vera hærri og viðurlög almennt strangari gegn brotum erlendra leiðsögumanna sem starfa á Íslandi án tilskilinna leyfa, að mati framkvæmdastjóra Samtaka ferðaþjónustunnar, sem telur líka mikið vanta upp á eftirlit með þessum málum hér á landi.
Lögreglan á Suðurnesjum hefur tvívegis á undanfarinni viku greint frá afskiptum sínum af erlendum leiðsögumönnum sem starfa hér á landi án leyfis. Einn þeirra var sektaður um 40.000 krónur eins og sagði í frétt mbl.is í gær.
Um þetta var rætt í hópnum Bakland ferðaþjónustunnar á Facebook og þeir sem þar viðruðu skoðanir sínar sögðu flestir að þessi sektarupphæð hefði nú ekki mikinn fælingarmátt. Undir þetta tekur Jóhannes Þór Skúlason, framkvæmdastjóri Samtaka ferðaþjónustunnar.
Ólafur Helgi Kjartansson, lögreglustjóri á Suðurnesjum, segir við mbl.is spurður út í þetta mál að „vissulega megi líta svo á að þessi sekt sé ekki mjög há miðað við þá hagsmuni sem eru í húfi“ en hins vegar fari lögregla einungis eftir þeim reglum sem gildi um sektarfjárhæðir.
Spurður hvort hann telji að refsingar við slíkum brotum ættu að vera strangari segir hann að það sé ekki sitt að segja til um.
„Ég held að það þurfi að taka mun harðar á svona brotum,“ segir Jóhannes Þór í samtali við mbl.is og bætir við að hann telji töluvert harðar tekið á sambærilegum brotum sem komi upp í byggingageiranum hérlendis. Það séu ekki nákvæmlega eins mál, en þó séu dæmi um samsvarandi tilfelli sem varði ólöglega starfsmenn frá ríkjum utan EES-svæðisins, þar sem gengið sé harðar fram við að nýta þær refsiheimildir sem í boði eru.
„Við teljum að það vanti nokkuð upp á það að eftirlit sé nægilega skilvirkt þegar kemur að ferðaþjónustunni varðandi þetta og höfum bent á það, meðal annars í skýrslu sem kom út í mars,“ segir Jóhannes.
Í þeirri skýrslu var meðal annars farið yfir að brýnt væri að auka samvinnu stofnana til að bæta eftirlit með málum eins og þeim sem hér er rætt um og sömuleiðis nýta refsirammann betur þegar slík mál kæmu upp, „til að sýna að slíkt verði ekki liðið hér á landi“.
„Við teljum að það þurfi mun skýrari pólitísk skilaboð til eftirlitsstofnana og -aðila um það hvað skuli gera í þessum málum í ferðaþjónustunni, því okkar upplifun er sú að það sé tekið harðar á þessu í byggingageiranum en ferðaþjónustunni,“ segir Jóhannes.