Gul eldgosaviðvörun á alþjóðaflug

Svæðið þar sem landris er mest er í um tólf …
Svæðið þar sem landris er mest er í um tólf kílómetra fjarlægð frá flugbrautum Keflavíkurflugvallar. mbl.is/ÞÖK

Veðurstofa Íslands hefur fært litakóða alþjóðaflugs fyrir eldfjöll á Reykjanesskaga yfir á gult. Var það gert nú síðdegis, samhliða óvissustigi almannavarna sem lýst hefur verið yfir vegna landriss og mögulegrar kvikusöfnunar vestan við fjallið Þorbjörn.

Svæðið þar sem landris er mest er í um tólf kílómetra fjarlægð frá flugbrautum Keflavíkurflugvallar.

Að sögn Guðjóns Helgasonar, upplýsingafulltrúa Isavia, hefur þetta engin áhrif á farþega og veldur ekki röskunum á flugi. Þá sé ekki gripið til sérstakra aðgerða eða ráðstafana á þessu stigi málsins.

Litakóðinn er í samræmi við tilmæli Alþjóðaflugmálastofnunarinnar (ICAO) og gefur …
Litakóðinn er í samræmi við tilmæli Alþjóðaflugmálastofnunarinnar (ICAO) og gefur flugmönnum, almenningi og flugmálayfirvöldum upplýsingar um ástand eldfjalla. Kort/Veðurstofa Íslands

„Við hjá Isavia erum í góðu sambandi við Almannavarnir og Veðurstofuna og fáum upplýsingar þaðan um stöðu mála. Isavia hefur áður brugðist við aðstæðum vegna eldgosa og hefur áætlanir um slíkt sem hefur verið unnið eftir í fyrri eldgosum og hafa verið æfðar síðan þá. Komi til þess verða þær virkjaðar.

Það að færa litakóða fyrir flug á gult hefur engin áhrif á flugfarþega og veldur ekki röskunum á flugi. Þar er heldur ekki um að ræða að gripið sé til sérstakra aðgerða eða ráðstafana. Þetta þýðir aukið eftirlit með eldstöð, sem við fáum upplýsingar um frá Almannavörnum og Veðurstofu, og aukna upplýsingagjöf milli viðbragðsaðila og Isavia. Þá er einnig um að ræða aukna upplýsingagjöf frá Isavia til flugrekenda og þjónustuaðila. Við fylgjumst því vel með þróun mála.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert