Má búast við flótta til landsins

„Við þurfum að vera undir það búin að það verði meiri ásókn frá öðrum svæðum hingað til lands,“ segir Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir um áhrif loftslagsbreytinga hérlendis. Eftir því sem umheimurinn hitnar mun ásókn flóttafólks í að koma hingað aukast. Þetta kom fram í erindi hans á Læknadögum í Hörpu í dag þar sem yfirskriftin var: Áhrif loftslagsbreytinga á heilsu manna.

Enn fremur fylgdi spurningin: Hvað getum við gert? Henni er ekki auðsvarað en Þórólfur hefur kynnt sér helstu áherslur sem Alþjóðaheilbrigðismálastofnunin, WHO, hefur lagt fram vegna þeirra áskorana sem hlýnun jarðar hefur í för með sér. Fyrsta skrefið segir hann þó að sé að hætta að deila um hvort þróunin sér raunverulega af mannavöldum. Í erindi sínu svaraði hann henni heldur afdráttarlaust. „Allir helstu vísindamenn samtímans eru sammála um að jörðin sé að hitna og að þróunin sé í beinu samhengi við kolefnisbrennslu fólks.“

Þá þurfi hver og einn að grípa til aðgerða sem sýni ábyrgð. Sjálfur hafi hann minnkað notkun á dísilbíl sínum og hætt alfarið að skjóta upp flugeldum. Það hafi verið töluvert átak þar sem hann hafi sjálfur verið „með skotglaðari mönnum“. Í myndskeiðinu er rætt við Þórólf.

Afleiðingarnar eru víðast hvar meiri en hér á landi. Samkvæmt þeim viðmiðum sem gefin hafa verið út er Ísland á einu af fáum svæðum í heiminum þar sem breytingar á hitastigi verða í raun hóflegar. Sérstaklega í samanburði við svæði í Afríku og Asíu sem eru nær miðbaugi verða breytingarnar litlar. WHO gengur út frá því að uppþot og stríð verði tíðari eftir því sem hitinn eykst. 

Þórólfur Guðnason flytur erindið á Læknaþingi í Hörpu.
Þórólfur Guðnason flytur erindið á Læknaþingi í Hörpu. mbl.is/Hallur Már


Heilsufarsáskoranir tengdar loftslagsbreytingum verða af ýmsu tagi og þeirra er þegar farið gæta í löndum eins og Indlandi þar sem Þórólfur bendir á að fleiri fái lungnakrabbamein af völdum mengunar en reykinga. Sótagnir í andrúmsloftinu séu sérstaklega skæðar. Á  alþjóðavísu má búast við miklum áskorunum í heilbrigðismálum. Slysum mun fjölga, sjúkdómar sem tengjast fátækt verða tíðari, öndunarfæra- og ofnæmissjúkdómar sömuleiðis og gert er ráð fyrir auknu álagi vegna sjúkdóma sem tengjast geði og sálarlífi fólks.  

Smitsjúkdómar á borð við malaríu, lyme og zíka-veiruna verða algengari og þegar fólk leggur á flótta gera berklar, ebóla og sýklalyfjaónæmar bakteríur vart við sig auk þess sem hættan á að sníkjudýr beri með sér sjúkdóma eykst. 

WHO hefur gefið út að 90% mannkyns andi að sér menguðu lofti og að mengunin sé „önnur algengasta orsök dauðsfalla af völdum sjúkdóma í heiminum sem ekki eru smitnæmir“. 

40% dauðsfalla af völdum lungnasjúkdóma, 25% dauðsfalla af völdum hjartasjúkdóma, 25% dauðsfalla af völdum heilablóðfalls og 30% dauðsfalla af völdum lungnakrabbameins megi rekja til mengunar. Alls sé mengun orsakavaldur 7 milljóna dauðsfalla á hverju ári og áhrifin séu meiri á börn en fullorðna.  

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert