Mikið margmenni kom saman á borgarafundi í íþróttahúsinu í Grindavík síðdegis, mun fleiri en skipuleggjendur fundarins bjuggust við. Fannar Jónasson bæjarstjóri ávarpaði fundinn fyrstur og sagði atburðarásina hafa verið mjög hraða frá því í gærmorgun, þegar boðað var til fundar vegna landriss vestan við Þorbjörn á skrifstofum Veðurstofu Íslands.
„Það eru örugglega margir sem búa við ótta og kvíða vegna þessa ástands,“ sagði bæjarstjórinn. „Við þurfum að halda vel utan um hvert annað og ekki síst passa vel upp á börnin okkar og ungmennin,“ bætti hann við, en íbúar sem mbl.is hefur rætt við í bænum hafa sumir hverjir lýst þessum áhyggjum í viðtölum í dag.
Hér skal því haldið til haga að eldgos í nágrenni Grindavíkur er ekki líklegasta sviðsmyndin í þeirri stöðu sem nú er komin upp, mun líklegra er að ekkert gos verði, en til þess að vera reiðubúin undir það versta þarf að búa sig undir að það versta geti gerst. Það var gert á fundinum í dag.
Á slaginu 17:00 byrjuðu símar í salnum að glamra og í nettengdri tölvu blaðamanns kom upp einnig upp viðvörun frá Neyðarlínunni, prufuskilaboð. „Við vorum að prófa kerfið,“ sagði Rögnvaldur Ólafsson frá almannavarnadeild ríkislögreglustjóra, sem stóð í pontu ásamt Bjarneyju Annelsdóttur, fulltrúa lögreglunnar á Suðurnesjum, akkúrat er skilaboðin bárust.
Lögreglan á Suðurnesjum mælist til þess að íbúar í Grindavík visti neyðarnúmerið 112 í tengiliðaskrá farsíma sinna og stilli tengiliðinn þannig að alltaf heyrist í símanum þegar þaðan koma boð, sama þó að hann sé stilltur á hljóðlausa stillingu.
Þá er líka þjóðráð að breyta þeim hljóðum sem heyrast er boð berast frá 112, þannig að þau séu auðþekkjanleg frá öðrum skilaboðahljóðum símans.
Ef grípa þarf til neyðarrýmingar Grindavíkur vegna yfirvofandi eldgoss verða Kórinn í Kópavogi, Reykjaneshöll í Reykjanesbæ og íþróttamiðstöðin í Þorlákshöfn settar í viðbragðsstöðu og þar tekið við íbúum bæjarins í fjöldahjálparstöðvar.
Ólafur Helgi Kjartansson lögreglustjóri sagði ánægjuefni hversu alvarlega íbúar tækju því að mögulega væri hætta á ferðum, sem sæist á góðri mætingu á fundinn. Hann hvatti íbúa til að hlusta vel á þær upplýsingar sem kæmu frá vísindamönnunum á fundinum.
„Það sem skiptir öllu máli er að fólk setjist niður og velti því fyrir sér; hvað myndi ég taka með mér ef ég þyrfti að yfirgefa heimili mitt?“ sagði lögreglustjórinn og nefndi lyf, gleraugu og snyrtivörur sem hluti sem ekki mættu gleymast, ef til rýmingar bæjarins kæmi, sem jarðvísindamenn telja þó ekki líklegt.
Nánar verður fjallað um það sem fram kom á íbúafundinum á mbl.is innan skamms.