Bláa lónið hefur brugðist við landrisi á Reykjanesi með því að fara yfir viðbúnað og viðbragðsáætlanir sínar.
Komi til eldgoss gæti þurft að flytja um 5.000 manns á brott, íbúa Grindavíkur og starfsmenn Svartsengisvirkjunar og Bláa lónsins, auk ferðamanna, að því er Rögnvaldur Ólafsson hjá almannavarnardeild ríkislögreglustjóra greindi frá.
„Eins og komið hefur fram er unnið út frá nokkrum sviðsmyndum og það er mikilvægt að halda því til haga að samkvæmt þeim er langlíklegast að ekkert verði úr þessu,“ segir Helga Árnadóttir, framkvæmdastjóri vöruþróunar-, sölu- og markaðssviðs Bláa lónsins, spurð hvort fyrirtækið sé ekki í viðbragðsstöðu.
„Við vitum að í níu af hverjum tíu skiptum leiða slíkar hræringar ekki til eldgoss en auðvitað viljum við vera undir allt búin og erum þess vegna að yfirfara þessar áætlanir.“
Um 1.500 manns heimsækja Bláa lónið á hverjum degi að meðaltali. Spurð hvort hún hafi áhyggjur af því að tíðindin um landrisið og mögulegt eldgos hafi áhrif á viðskiptin bendir hún á að mestar líkur séu á því að ekkert verði úr þessu, eins og staðan er núna. Annars sé fyrirtækið í góðu samstarfi við almannavarnir og fylgist grannt með stöðu mála.