Eldgos á Reykjanesskaga, rétt við Grindavík eða annars staðar, yrðu ekki með hættulegri gosum sem geta orðið á Íslandi og enn sem komið er hefur ekki nærri því nógu mikið gerst til þess að sérfræðingar sem fylgjast með stöðunni trúi því að það sé að fara að gjósa.
Þetta sagði Magnús Tumi Guðmundsson, jarðeðlisfræðingur hjá Jarðvísindastofnun Háskóla Íslands, er hann ávarpaði íbúa Grindavíkur og aðra sem voru viðstaddir íbúafundinn sem þar fór fram síðdegis í dag.
Hann sagði blendnar tilfinningar að vera kominn til Grindavíkur í þeim tilgangi að ræða óvissuástand við íbúa staðarins, hingað ætti hann ættir að rekja og hefði dvalið sem strákur.
„Ástæðan fyrir að hér er komið viðbúnaðarstig er að við getum ekki tekið neina sénsa. Við verðum að vera tilbúin, við búum á Íslandi og þetta er eldgosaland,“ sagði Magnús Tumi við Grindvíkinga, en ekki hefur gosið á því svæði sem nú þenst út síðan um það bil árið 1240 og ekkert eldgos orðið á Reykjanesskaga síðan á 13. öld.
Ekki er enn vitað hvort landris vestan fjallsins Þorbjarnar við Grindavík stafar af kvikusöfnun eða öðrum orsökum, en þó að um kvikusöfnun sé að ræða er ekki þar með sagt að verði eldsumbrot. Magnús Tumi sagði að í 9 af hverjum 10 skiptum þegar kvikuinnskot ætti sér stað yrði ekki meiri háttar viðburður. Hann fór yfir mögulegar sviðsmyndir sem settar hafa verið upp:
Ef landris stafar af kvikusöfnun:
Ef landris stafar ekki af kvikusöfnun:
Fram kom í máli Magnúsar Tuma að óvíst væri hver af þessum sviðsmyndum yrði raunin, en að nauðsynlegt væri að allir væru undir það búnir að það yrði eldgos. „Við reiknum ekki með því heima hjá okkur að það brenni ofan af okkur, en samt erum við með reykskynjara,“ sagði Magnús Tumi.
Magnús Tumi sagði að ef til eldgoss kæmi yrði gossprungan að öllum líkindum á því svæði sem lyftist nú upp vestan Þorbjarnar og gosið ekki stærra en stærstu sögulegu gos þarna á Svartsengissvæðinu.
Hann fór yfir skýringarmynd af hrauni sem þaðan hefur runnið og sagði að til samanburðar væru tvö stærstu hraunin, sem hvort um sig eru um 20 ferkílómetrar, töluvert minni en til dæmis Holuhraunsgosið.
Hann sagði að ef það yrði eldgos yrði það afar líklega hraungos, sem fæli ekki í sér bráðahættu fyrir nærstadda menn. „Fólk verður yfirleitt ekki undir hrauni, fólk hleypur hraðar en hraun og forðar sér. Alveg sama hvar er. Hins vegar getur orðið mjög mikið eignatjón í slíkum gosum,“ sagði Magnús Tumi.
Ýmsir aðrir sérfræðingar ræddu stöðuna við íbúa Grindavíkur á fundinum og fjölmargar spurningar komu fram frá íbúum um hin ýmsu mál er varða mögulega neyðarrýmingu bæjarins í verstu mögulegu stöðu, tryggingamál og margt til viðbótar, sem fólk eðlilega leiðir hugann að þegar óvissuástand er ríkjandi.