Gera ráð fyrir að veiran berist til Íslands

Þórólfur Guðnason segir gripið til þeirra aðgerða sem hægt er …
Þórólfur Guðnason segir gripið til þeirra aðgerða sem hægt er til að hefta faraldurinn. Mynd/mbl.is

„Það er ekki inni í myndinni að loka hérna öllum samgöngum til landsins. Það myndi aldrei ganga upp. Þannig að þetta kemur fyrr en síðar, en okkar nálgun miðast að því að tefja útbreiðsluna eins mikið og hægt er, með þeim aðgerðum sem verið er að grípa til. Draga aðeins úr faraldrinum þannig að það verði ekki eins mikið álag á heilbrigðisþjónustuna, og sinna þeim sem veikjast eins og hægt er,“ segir Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir um hina mannskæðu kórónaveiru sem breiðist nú hratt um heiminn.

Vitað er að um 2.700 hafa sýkst af veirunni og að minnsta kosti 81 látist, en um er að ræða alvarlega lungnasýkingu sem á uppruna sinn að rekja til Wuhan í Kína.

Búum okkur undir það versta

Þórólfur segist ekki geta sagt til um líkurnar á því að veiran berist til Íslands, en unnið er samkvæmt þeirri sviðsmynd að hún geri það. „Það er okkar nálgun á þetta, að þetta muni koma til Íslands. Hversu mikið er þó ómögulegt að segja. Við reynum að undirbúa okkur eins og hægt er. Undirbúum okkur undir það versta, en vonum að svo verði ekki. En við gerum fastlega ráð fyrir því að þetta komi hingað,“ ítrekar hann, en grunur um smit hefur komið upp í nágrannríkjum okkar, til að mynda í Finnlandi, Bretlandi og nú síðast í Svíþjóð.

„Maður veit að þetta er komið út um allt. Það er að koma upp grunur, stundum er það staðfest og stundum ekki. Maður veltir sér ekki of mikið upp úr því.“

Erfiðara að hafa hemil á veirunni

Kínversk heilbrigðisyfirvöld greindu frá því í gær veiran gæti smitast á milli manna áður en einkenni gerðu vart við sig og líkist að því leyti hefðbundinni inflúensu. Þórólfur segir þær fréttir þó hvorki hafa verið staðfestar af Sóttvarnastofnun Evrópu né Alþjóðaheilbrigðismálastofnuninni. „Það þýðir auðvitað að það verður erfiðara að hafa hemil á veirunni. Það breytir þó í sjálfu sér ekki nálguninni á vandamálið. Við erum ennþá að vinna í samræmi við þær viðbragðsáætlanir sem við erum með og skerpa á öllum hlutum. Og setja nauðsynlega aðila í ákveðnar stellingar ef eitthvað þarf að gera.“ Vísar hann þar til fyrirliggjandi viðbragðsáætlunar um alvarlega smitsjúkdóma sem unnin er í samvinnu við almannavarnadeild ríkislögreglustjóra.

Gætum lent í vandræðum ef margir veikjast alvarlega

Í tilkynningu sem gefin var út fyrir helgi kemur fram að farþegar sem komi til landsins í gegnum Keflavíkurflugvöll muni fá skilaboð þess eðlis að beri þeir merki um öndunarfærasýkingu og hafi verið í Wuhan í Kína síðustu 14 daga, eða verið í kringum einstaklinga sem gætu hafa smitast, þá þurfi að gera á þeim læknisfræðilegt mat á Keflavíkurflugvelli. Í framhaldi af því komi einangrun til greina.

„Þetta er eitthvað sem verður gert í samráði við yfirvöld á Keflavíkurflugvelli og það verður að vera í samræmi við ferðamenn hérna innanlands. Miðað við allar þessar aðgerðir sem gripið hefur verið til í Kína eru kannski minni líkur en áður að það komi hingað smitaðir einstaklingar, en þó veit maður það ekki neitt.“ Aðspurður segir hann enn sem komið er ekki hafa þurft að grípa til neinna aðgerða vegna farþega sem átt hafa leið um flugvöllinn.

Þórólfur segir að kerfið á Íslandi sé ágætlega í stakk búið til að takast á við heilbrigðisvá af þessu tagi. „Upplýsingakerfið og samhæfingin er góð. En auðvitað getur maður spurt sig hvort innviðirnir séu það, til dæmis á Landspítalanum, ef það fara að koma mjög margir alvarlega veikir sem þurfa einangrun, þá getum við lent í vandræðum. En við erum að vinna með það sem við höfum og reynum að gera það eins vel og við getum. Svo verður það bara að koma í ljós hvað verður.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert