Flóð í Hvítá í Árnessýslu er í rénun. Ísstífla hefur valið því að síðustu daga hefur áin flætt yfir bakka sína milli bæjanna Austurkots og Brúastaða sem eru efst í flóanum og liggur vatn nú yfir víðfeðmum svæðum á þessum slóðum.
Vegir heim að bæjum á þessum slóðum hafa aðeins verið færir stórum bílum. Skemmdir af völdum þessara hamfara koma ekki í ljós fyrr en vatn sjatnar, en Steinþór Guðmundsson, bóndi í Oddgeirshólum, telur spjöllin verða óveruleg.
„Núna er heldur að kólna í veðri, þá verður rennslið í ánni minna og staðan skánar,“ segir Steinþór og bætir við að flóðið nú sé í minna lagi miðað við þær gusur sem þarna hafa komið. Fylgst er vel með framvindu við Hvítá af lögreglu og Veðurstofu. sbs@mbl.is