Guðni Einarsson
Snjóflóðið sem féll úr Skollahvilft ofan Flateyrar að kvöldi 14. janúar var verulega mikið minna að rúmmáli en snjóflóðið mannskæða sem féll þar árið 1995. Það var mun stærra en flóð sem féll 1999 og var stærsta snjóflóð sem fallið hafði eftir að snjóflóðavarnargarðarnir risu þar til nú.
Flóðið úr Skollahvilft 1999 var 130 þúsund rúmmetrar og er talið að snjóflóðið 1995 hafi verið 400-500 þúsund rúmmetrar. Snjóflóðið sem féll úr Skollahvilft nú er þar á milli, að sögn Tómasar Jóhannessonar, fagstjóra hjá Veðurstofu Íslands. Hann sagði að svo virtist sem snjóflóðið nú hefði fallið tiltölulega hratt miðað við stefnuna sem það tók og hraðamælingu. Það kynni því að hafa verið nær snjóflóðinu 1995 að hraða og afli heldur en rúmmálið eitt benti til.
Snjóflóðið sem féll nú úr Innra Bæjargili var mun minna en stærstu snjóflóð sem þekkt eru þar. Það kann að hafa verið svipað að stærð og snjóflóð sem féll árið 2000. Ekki er búið að meta rúmmál snjóflóðsins nú að fullu enda erfiðara að reikna það út, þar sem nokkur hluti þess fór út í sjó. Sama gilti um snjóflóðið árið 2000, sem var stærsta flóðið sem fallið hafði úr Innra Bæjargili á snjóflóðavarnargarðinn fram til þessa.