Næsta fjöldahjálparstöð í Reykjanesbæ

Íbúa­fund­ur fer fram í Grinda­vík vegna stöðunn­ar sem er uppi …
Íbúa­fund­ur fer fram í Grinda­vík vegna stöðunn­ar sem er uppi eft­ir að rík­is­lög­reglu­stjóri vikjaði óvissu­stig al­manna­varna vegna mögu­legr­ar kviku­söfn­un­ar vest­an við fjallið Þor­björn. mbl.is/Kristinn Magnússon

Búið er að yfirfara rýmingaráætlanir í samræmi við mögulegar sviðsmyndir vegna mögulegrar kvikusöfnunar vest­an við fjallið Þor­björn við Grindavík. Næstu fjöldahjálparstöðvar eru í Kórnum í Kópavogi og íþróttahöllinni í Reykjanesbæ.

Þetta kemur fram í stöðuskýrslu frá sam­hæf­ing­ar­stöð al­manna­varna vegna þess að lýst hefur verið yfir óvissustigi vegna landriss á Reykjanesskaga.

Þar segir að lögreglustjórinn á Suðurnesjum og björgunarsveitir haldi utan um áætlanagerð vegna rýmingar.

Unnið er að áætlunum um rýmingu og úrræði fyrir vistfólk á hjúkrunarheimilinu Víðihlíð. Einnig hafa verið borin kennsl á skjólstæðinga heimahjúkrunar og unnið er að áætlun um samfellu í þeirri þjónustu sem þar er veitt.

Gæti valdið eða tengst frekari skjálftavirkni

Enn fremur kemur fram að atburðarásin hafi aðeins staðið yfir í nokkra daga og óvíst er hvort hún leiði til frekari atburða sem hafi áhrif. Út frá þeim upplýsingum sem þegar liggja fyrir eru eftirfarandi sviðsmyndir mögulegar án þess að hægt sé að segja til um hver þeirra er líklegust eða hversu hratt atburðarásin mun þróast:

Ef landris stafar af kvikusöfnun:

• Kvikusöfnun hættir mjög fljótlega án frekari atburða.

• Kvikusöfnun heldur áfram á sama stað og hraða í einhvern tíma án þess að til stærri atburða komi

• Kvikusöfnun heldur áfram og leiðir til gangainnskots

• Kvikusöfnun heldur áfram og leiðir til gangainnskots og eldgoss (hraungoss á sprungu).

• Kvikusöfnun veldur jarðskjálftavirkni með stærri skjálftum á þessu svæði (allt að M6).

Ef landris stafar ekki af kvikusöfnun:

• Landrisið gæti valdið eða tengst frekari skjálftavirkni og þar með hugsanlega stærri skjálftum á þessu svæði (allt að M6).

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert