„Framganga Matvælastofnunar í umræddu máli kallar á ábyrgð stjórnenda hennar,“ segir Haraldur Benediktsson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins. Eins og fram hefur komið hefur stofnunin greitt fyrirtækinu Kræsingum í Borgarnesi alls 112 milljónir króna í bætur.
Fyrirtækið var sýknað af kæru um vörusvik í nautabökum. Kæran byggðist á aðeins einu sýni sem dómstólum þótti veikur grunnur að byggja á. „Þetta er ámælisdómur yfir vinnubrögðum Matvælastofnunar. Við getum samt ekki sett öll vinnubrögð stofnunarinnar undir, en oft er umkvörtunarefni stjórnenda fyrirtækja hvernig eftirlit er framkvæmt,“ segir Haraldur.
Sigurður Hannesson, framkvæmdastjóri Samtaka iðnaðarins, segir reglulega berast frásagnir af atvikum þar sem fólk sem sinnir opinberu eftirliti, á ýmsum sviðum, fari fram af mikilli hörku. „Framferði Matvælastofnunar gagnvart þessu tiltekna fyrirtæki sýnir svart á hvítu að verklag stofnunarinnar þarf að endurskoða. Framgangan í máli Kræsinga er engum til hagsbóta,“ segir Sigurður og bætir við að SI hafi hvatt til þess að opinbert eftirlit með matvælaframleiðslu verði einfaldað og samræmt. sbs@mbl.is