Gróft mat á rúmmáli snjóflóðanna sem féllu á Flateyri 14. janúar sýnir að flóðið sem féll úr Skollahvilft var um 350 þúsund m³ og flóðið sem féll úr Innra-Bæjargili um 225 þúsund m³. Til samanburðar er talið að hamfaraflóðið úr Skollahvilft 26. október 1995 hafi verið um 430 þúsund m³.
Þetta kemur fram á vef Veðurstofunnar og flóðið nú því minna en það sem féll 1995.
Um er að ræða bráðabirgðaniðurstöður sem verða endurskoðaðar þegar unnið hefur verið betur úr snjódýptarmæligögnum.
Flóðið nú var hins vegar mun stærra en snjóflóð sem féll á Skollahvilftargarðinn í febrúar árið 1999 en það var metið um 130 þúsund m³ og var stærsta snjóflóð sem fallið hafði úr Skollahvilft eftir að snjóflóðavarnagarðarnir voru reistir þar til nú.
Fram kemur á vef Veðurstofunnar að stærð snjóflóða og eyðileggingarmáttur fari ekki eingöngu eftir rúmmáli þeirra. Snjóflóðin nú virðast hafa farið tiltölulega hratt skv. hraðamælingu með radar á Skollahvilftargarðinum og miðað við stefnuna sem flóðin tóku eftir að þau komu niður úr upptakasvæðunum. Skollahvilftarflóðið nú kann því að hafa verið nær snjóflóðinu 1995 að hraða og afli en rúmmálið eitt bendir til.
Flóðið úr Innra-Bæjargili nú er mun minna að rúmmáli en flóðið úr Skollahvilft, enda er upptakasvæði þess minna að flatarmáli. Það er líklega talsvert minna en nokkur snjóflóð sem þekkt eru úr gilinu, m.a. árin 1953, 1970–1972 og 1974. Allstórt snjóflóð féll úr Innra-bæjargili í febrúar árið 2000 er það er talið hafa verið um 110 þúsund m³ að stærð. Það var stærsta flóð sem fallið hafði úr Innra-Bæjargili á snjóflóðavarnagarðinn þar til nú.