Stefán Eiríksson, borgarritari Reykjavíkurborgar og fyrrverandi lögreglustjóri á höfuðborgarsvæðinu, hefur verið ráðinn útvarpsstjóri Ríkisútvarpsins til næstu fimm ára.
Í tilkynningu frá stjórn RÚV segir að ákvörðunin hafi verið tekin samhljóða á fundi stjórnar í gærkvöldi, en einn stjórnarmaður sat hjá við atkvæðagreiðsluna samkvæmt heimildum mbl.is.
Stefán tekur til starfa 1. mars næstkomandi, en hann er menntaður lögfræðingur og hefur auk þess sótt ýmis námskeið tengd stjórnun.
Hann er 49 ára gamall og starfaði sem blaðamaður bæði á Tímanum og Morgunblaðinu samhliða laganámi á árunum 1991-1996, en starfaði síðan við lögfræði- og stjórnunarstörf hjá hinu opinbera næsta áratug eða þar til hann var skipaður lögreglustjóri árið 2006.
Árið 2014 tók hann við starfi sviðsstjóra velferðarsviðs Reykjavíkurborgar, áður en hann var svo ráðinn borgarritari árið 2016.
Stjórn RÚV segir að í ráðningarferlinu hafi rík áhersla verið lögð á „þekkingu, reynslu og færni í stjórnun og rekstri“ og leitað eftir öflugum leiðtoga til að stýra RÚV inn í nýja tíma miðlunar.
Capacent var stjórn RÚV til ráðgjafar í ráðningarferlinu, en staða útvarpsstjóra var auglýst 15. nóvember síðastliðinn í kjölfar þess að Magnús Geir Þórðarson var ráðinn Þjóðleikhússtjóri og ákvað að yfirgefa Efstaleiti.
Fjörutíu og einn sótti um stöðuna, en listi umsækjenda hefur ekki verið gerður opinber og ekki stendur til að opinbera hann.