Guðmundur Gunnarsson, sem lét af störfum sem bæjarstjóri Ísafjarðarbæjar í gær, segir að það sé fjarri því svo að hann haldi fullum launum út kjörtímabilið. Hann hefur komist að samkomulagi um starfslok og bíður starfslokasamningur hans samþykktar bæjarstjórnar.
„Án þess að ég vilji fara nákvæmlega út í innihaldið, þá er það mjög vel í lagt,“ segir Guðmundur í samtali við mbl.is um starfslokasamninginn, en í umræðum um brotthvarf hans hafa ýmsir velt því fyrir sér hvort það geti ekki verið ansi dýrt fyrir sveitarfélög að skipta út bæjarstjóra á miðju kjörtímabili, og hafa þá „tvo bæjarstjóra á launum“, enda alkunna að íslenskir bæjarstjórar fá almennt vel greitt fyrir störf sín.
Tilkynningin sem barst frá Ísafjarðarbæ um starfslok Guðmundar vakti mikla athygli, enda kom þar fátt fram um ástæðu starfslokanna nema að um væri að ræða ólík sýn á ótilgreind mál. Guðmundur hefur verið áberandi í fjölmiðlum í mánuðinum eftir snjóflóðin sem féllu á Flateyri og í Súgandafirði og kom starfslokatilkynningin eins og þruma úr heiðskíru lofti.
Sjálfur vill Guðmundur ekkert tjá sig um ástæður þess að hann komst að samkomulagi um starfslok umfram það sem fram kemur í tilkynningunni, en hann segir „eðlilegt þegar svona er að fólk hafi meiningar og skoðanir“ á hlutunum.
Á vef Fréttablaðsins var greint frá því að ákvörðunin ætti sér rætur í samstarfsörðugleikum bæjarstjórans og Daníels Jakobssonar, oddvita Sjálfstæðisflokks í Ísafjarðarbæ og fyrrverandi bæjarstjóra, sem sneri nýlega til baka eftir að hafa tekið sér leyfi frá bæjarstjórnarstörfum.
Sögðu heimildamenn Fréttablaðsins að soðið hefði upp úr á milli Daníels og Guðmundar og einnig að Daníel sjálfur vildi setjast í bæjarstjórastólinn í Ísafjarðarbæ. Eiríkur Örn Norðdahl, rithöfundur á Ísafirði, sagði að heimkoma Daníels væri ástæðan fyrir brotthvarfi Guðmundar, á Twitter í gær.
Arna Lára Jónsdóttir, bæjarfulltrúi Í-listans á Ísafirði, segir í samtali við Bæjarins besta á Ísafirði í dag að það sé augljóst í hennar huga að samskiptaörðugleikar hafi leitt til þess að bæjarstjórinn er hættur.
Hún segist jafnframt telja að framsóknarmenn, sem mynda meirihluta með sjálfstæðismönnum í bæjarmálunum í Ísafjarðarbæ, hljóti að vera hugsi yfir sinni stöðu í meirihlutasamstarfinu eftir þetta, þar sem þeir vildu auglýsa eftir bæjarstjóra.
„Ég hef litið svo á Guðmundur hafi verið þeirra maður, ef hægt er að segja svo. Það er ekkert launungarmál að Sjálfstæðisflokkurinn tefldi Daníel Jakobssyni fram sem bæjarstjóra en féllust svo á að auglýsa. Guðmundur hefur verið vel liðinn og margir bæjarbúar mjög ósáttir við þessi málalok,“ er haft eftir Örnu Láru á vef Bæjarins besta.