Áætlun gerir ráð fyrir skertu atvinnulífi og hærri dánartíðni

Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir.
Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir. Mynd/mbl.is

Sóttvarnalæknir og almannavarnadeild ríkislögreglustjóra funduðu í morgun og var þar tekin ákvörðun um að vinna eftir landsáætlun fyrir heimsfaraldur inflúensu.

Áætlunin styðst við lög um almannavarnir og sóttvarnalög. Er gert ráð fyrir að atvinnulíf í landinu verði skert í ákveðinn tíma, hluti þjóðarinnar verði rúmfastur vegna veikinda og dánartíðnin verði umfram það sem búast má við í venjulegu árferði. Þetta kemur fram í stöðuskýrslu frá ríkislögreglustjóra um óvissustig vegna kórónaveiru.

Á fundinum var meðal annars rætt um áhrif þess að loka landinu fyrir flug- og skipaumferð og áhrif þess á þjóðfélagið. Áætlað er að faraldur sem þessi gangi yfir á 2-3 mánuðum og gæti lokun landsins hugsanlega orðið til að minnsta kosti 6 mánaða. Hins vegar er ekki talið raunhæft að grípa til slíkra aðgerða, en ákvörðun um slíkt yrði tekin í samráði við stjórnvöld.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert