Kyrrsetningarmál Wikileaks aftur til héraðsdóms

Sveinn Andri Sveinsson var áður lögmaður beggja fyrirtækja í rimmunni …
Sveinn Andri Sveinsson var áður lögmaður beggja fyrirtækja í rimmunni við Valitor, en nú ver hann hagsmuni Sunshine Press Productions gegn Datacell. mbl.is/Eggert

Landsréttur hefur fallist á kröfur Datacell ehf. um ómerkingu tveggja úrskurða héraðsdóms frá því í nóvember og desember, í málum þar sem meðal annars er deilt um 540 milljóna króna kyrrsetningargerð vegna greiðslugáttar sem Datacell hélt utan um fyrir Sunshine Press Productions ehf.,  rekstrarfélags Wikileaks.

Forsaga málsins er sú að þessari greiðslugátt, sem Valitor annaðist, var lokað af greiðslumiðlunarfyrirtækinu. Valitor féllst á það í fyrra að greiða fyrirtækjunum tveimur 1,2 milljarða króna í bætur fyrir að slíta samningum um greiðslugáttina, en síðan þá hafa staðið yfir lagadeilur á milli fyrirtækjanna tveggja um hvernig skuli skipta þeim fjármunum.

Stuttu eft­ir að Valitor samþykkti að greiða bæt­urn­ar fór Datacell fram á kyrr­setn­ingu þar sem fyr­ir­tækið taldi sig eiga rétt á stærri hluta fjár­hæðar­inn­ar og 540 milljónir króna voru kyrrsettar af sýslumanni í júlí í fyrra.

mbl.is/Hallur Már

Datacell höfðaði tvö mál, sem báðum var vísað frá Héraðsdómi Reykjavíkur, en í öðru þeirra krafði fyrirtækið SPP um greiðslu þessara 540 milljóna. Landsréttur hefur nú ákveðið að málin skuli tekin fyrir að nýju í héraðsdómi og krafa Datacell skuli tekin fyrir þrátt fyrir að farið hafi verið fram á endurupptöku kyrrsetningarinnar af hálfu SPP. Enn sér ekki fyrir endann á deilunni um skiptingu milljónanna.

Sveinn Andri Sveinsson, sem áður var lögmaður beggja fyrirtækja í deilunni við Valitor en er nú einungis lögmaður SPP og tengdra aðila, segir við mbl.is að nú bíði hann þess að málsaðilar verði boðaðir fyrir héraðsdóm.

Hann kvaðst nokkuð undrandi á því að málin hefðu verið tekin upp að nýju, sérstaklega málskot Datacell á ákvörðun sýslumanns um endurupptöku kyrrsetningar. Með niðurstöðu sinni sé Landsréttur nánast að segja að héraðsdómur hefði átt að „hafa vit fyrir sóknaraðila málsins“ og „hysja upp um hann“, en málskoti Datacell var vísað frá héraðsdómi á þeim grundvelli að gerðarþolar kyrrsetningargerðarinnar sem var til umfjöllunar hefðu verið tveir, Sunshine Press Production og tengdur einstaklingur að auki.

Úrskurður Landsréttar I

Úrskurður Landsréttar II

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert