Sjúkrahúsið keyrt á varaafli í 10 daga

Alvarlegustu tilvikin vegna áhrifa rafmagnsleysisins í desember urðu á Dalvík …
Alvarlegustu tilvikin vegna áhrifa rafmagnsleysisins í desember urðu á Dalvík þar sem starfsstöð stofnunarinnar var óstarfhæf að mestu og í Norður-Þingeyjarsýslu þar sem rafmagn var skammtað. mbl.is/Eggert

Miklar rafmagnstruflanir urðu á Sjúkrahúsinu á Akureyri þegar óveðrið gekk yfir í desember, sem höfðu þau áhrif að rafmagn sló út og önnur af tveimur varaaflsvélum sjúkrahússins tók við. Sjúkrahúsið var keyrt á varaafli í 10 daga á meðan unnið var að viðgerð á rofabúnaði. Á þeim tíma reyndi á viðbragðsáætlun vegna rafmagnsleysis.

Þetta kemur fram í svari Svandísar Svavarsdóttur heilbrigðisráðherra við fyrirspurn Andrésar Inga Jónssonar þingmanns, sem óskaði eftir upplýsingum um varaafl heilbrigðisstofnana. 

Andrés vildi m.a. fá að vita hvaða heilbrigðisstofnanir skorti rafmagn vegna áhrifa óveðursins sem gekk yfir landið 10. og 11. desember og hversu lengi? Hverjar þeirra höfðu ekki tryggt varaafl?

Sjúkrahúsið á Akureyri.
Sjúkrahúsið á Akureyri. mbl.is/Jón Pétur

Í svari ráðherra segir, að ein afleiðinga ofsaveðurs sem gekk yfir landið þessa tvo daga hafi verið víðtækar rafmagnstruflanir á stórum svæðum. Nokkrar heilbrigðisstofnanir sem séu með starfsemi á þeim svæðum hafi ekki farið varhluta af því. 

Reyndi á viðbragðsáætlun vegna rafmagnsleysis

„Á Sjúkrahúsinu á Akureyri voru miklar rafmagnstruflanir sem höfðu þau áhrif að rafmagn sló út og önnur af tveimur varaaflsvélum sjúkrahússins tók við. Endurnýjun á kerfinu hefur verið í gangi frá því um mitt ár 2019 og áætlað er að henni ljúki í byrjun árs 2020. Þegar þeirri endurnýjun lýkur verður sjúkrahúsið betur í stakk búið til að þola rafmagnstruflanir af þessu tagi. Sjúkrahúsið var keyrt á varaafli í 10 daga á meðan unnið var að viðgerð á rofabúnaði. Á þeim tíma reyndi á viðbragðsáætlun vegna rafmagnsleysis auk þess sem keyrð var viðbragðsvakt allan sólarhringinn,“ segir í svari ráðherra.

Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra.
Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Þá kemur fram, að hjá Heilbrigðisstofnun Norðurlands (HSN) hafi röskun verið mest á starfsemi þeirra eininga sem misstu rafmagn, en með því féll niður möguleiki á að komast í sjúkraskrárkerfi og nota síma. Ekki hafi verið tiltækt ljós til notkunar í aðgerðum og í sumum tilvikum hafi eina leiðin til að hlaða farsíma verið að hlaða þá í bifreiðum HSN.

Starfsstöð HSN á Dalvík var óstarfshæf

„Alvarlegustu tilvikin vegna áhrifa rafmagnsleysis urðu á Dalvík þar sem starfsstöð stofnunarinnar var óstarfhæf að mestu og í Norður-Þingeyjarsýslu þar sem rafmagn var skammtað. Þá brann símakerfi HSN í Þingeyjarsýslum yfir í heild sinni og olli verulegri röskun. Á Blönduósi, í Skagafirði, á Húsavík og í Fjallabyggð eru varaaflsstöðvar sem tóku við þegar rafmagn fór af. Á Akureyri hélst rafmagn einnig á en ef rafmagn hefði farið af á Akureyri hefði verið hægt að leita til Sjúkrahússins (SAk) þar sem öruggt varaafl er til staðar. Hjá Heilbrigðisstofnun Vesturlands (HVE) voru áhrif óveðursins mest á Hvammstanga, en þar var rafmagnslaust í 40 klukkustundir,“ segir í svari ráðherra. 

Sjá svar Svandísar í heild sinni. 

Andrés Ingi Jónsson, þingmaður utan þingflokka.
Andrés Ingi Jónsson, þingmaður utan þingflokka. mbl.is/Eggert Jóhannesson
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka