„Við svona aðstæður þá hörmum við auðvitað þessa niðurstöðu. Það var sagt upp dágóðum hópi í ágúst. Síðan hefur þetta vofað yfir, fólki til skelfingar og svo kom þetta í dag.“
Þetta segir Jón Ingi Cæsarsson, formaður Póstmannafélags Íslands, í samtali við mbl.is vegna frétta af því að Íslandspóstur hafi sagt upp rúmlega 30 manns í kjölfar þeirrar ákvörðunar fyrirtækisins að hætta að dreifa ónafnmerktum fjölpósti á suðvesturhorni landsins. Viðskiptalegur grundvöllur þess sé brostinn.
„Fólk er auðvitað búið að vera á tánum í marga mánuði af ótta við að næsta hryðja kæmi og að fer vitanlega ekki vel með móralinn. Vafalaust hafa menn á Excel-skjölunum einhver rök fyrir því að þetta sé skynsamlegt en það er nýtt hjá póstmönnum að búa við svona óöryggi gagnvart vinnu, segir Jón Ingi og bætir við:
„Hins vegar standa þeir svo sem rétt og vel að þessum uppsögnum og fara eftir öllum prótókollum með það. Það er ekki hægt að kvarta yfir því. Aftur á móti myndi maður vilja sjá meiri metnað í póstþjónustu á Íslandi og það er auðvitað á ábyrgð stjórnmálamannanna, stjórnar Íslandspósts og forstjórans.“