Endurupptekin mál Sigurjóns komin á dagskrá

Tvö svokallaðra hrunmála sem tengjast Landsbankanum verða tekin fyrir að …
Tvö svokallaðra hrunmála sem tengjast Landsbankanum verða tekin fyrir að nýju í Hæstarétti í mars eftir að krafa Sigurjóns Árnasonar, fyrrverandi bankastjóra, var samþykkt af endurupptökunefnd. mbl.is/Þórður Arnar Þórðarson

Tvö af hrunmálunum svokölluðu sem tengjast Landsbankanum eru nú aftur komin á dagskrá Hæstaréttar, þrátt fyrir að dómur hafi upphaflega fallið í þeim í október 2015 og í febrúar 2016. Um er að ræða Ímon-málið og markaðsmisnotkunarmál bankans. Er ástæðan sú að í maí á síðasta ári féllst endurupptökunefnd á kröfu Sigurjóns Árnasonar, fyrrverandi bankastjóra Landsbankans, um endurupptöku. Verður málflutningur fyrir Hæstarétti í málunum dagana 4. og 11. mars.

Í niðurstöðu endurupptökunefndar var aðeins byggt á því að einn þáverandi hæstaréttardómara og dómari í málinu, Viðar Már Matthíasson, hefði átt hlutabréf í Landsbankanum á þeim tíma sem meint brot áttu sér stað og því hefði hann verið vanhæfur í málinu. Það skal þó tekið fram að nefndin slær því ekki föstu hvort hagsmunir Viðars Más hafi haft áhrif á dómsniðurstöðuna, en að draga megi óhlutdrægni dómsins í efa. Kemur fram að hann hafi keypt bréf í bankanum fyrir 15 milljónir og að „telja verður að þeir fjár­mun­ir sem fóru for­görðum hjá dóm­ar­an­um hafi verið slík­ir að at­vik eða aðstæður voru til að draga óhlut­drægni dóm­stóls­ins með réttu í efa“.

Dómarar í málunum þegar þau voru tekin fyrir árin 2015 og 2016 voru Markús Sigurbjörnsson, Eiríkur Tómasson, Helgi I. Jónsson og Viðar Már Matthíasson, sem allir dæmdu í báðum málunum. Þá var Þorgeir Örlygsson dómari í Ímon-málinu og Gunnlaugur Claessen í markaðsmisnotkunarmálinu. Aðeins Helgi er enn starfandi sem hæstaréttardómari, en enginn þeirra kemur að því að dæma málin að nýju í ár.

Athygli vekur að aðeins einn núverandi hæstaréttardómari er skráður fyrir málinu samkvæmt dagskrá réttarins, en það er Karl Axelsson. Aðrir dómarar eru þau Garðar Gíslason og Ingibjörg Benediktsdóttir, sem bæði eru fyrrverandi hæstaréttardómarar. Þá dæma einnig þeir Símon Sigvaldason, dómstjóri við Héraðsdóm Reykjavíkur, og Skúli Magnússon, héraðsdómari við sama dómstól, í málunum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka