Fallbyssukúla „undir rassinum á bæjarstjóra“

Sprengjusérfræðingarnir og Hörður Baldvinsson safnstjóri.
Sprengjusérfræðingarnir og Hörður Baldvinsson safnstjóri. mbl.is/Óskar Pétursson

Sprengjusveit Landhelgisgæslunnar fór í morgun til Vestmannaeyja og fjarlægðii fallbyssukúlu sem fundist hafði í kjallara byggðasafns Sagnheima. Talið er að kúlan sé frá lokum seinni heimsstyrjaldar.

„Við rákumst hérna á fallbyssukúlu á mánudaginn í geymslum byggðasafnsins í Vestmannaeyjum. Við tókum ljósmynd af þessu og þeir hjá Landhelgisgæslunni mátu það svo að tveir sprengjusérfræðingar þaðan voru sendir hingað til Eyja í morgun,“ segir Hörður Baldvinsson safnstjóri í samtali við mbl.is.

Mennirnir fjarlægðu kúluna og eru farnir til Reykjavíkur þar sem hún verður rannsökuð frekar.

„Við vitum ekkert hvort kúlan var virk eða ekki,“ segir Hörður en hann og starfsmenn á safninu telja að um sé að ræða breska kúlu frá lokum seinni heimsstyrjaldar.

Sprengjusérfræðingarnir að störfum.
Sprengjusérfræðingarnir að störfum. mbl.is/Óskar Pétursson

„Það var ekkert skrifað í geymslunni hvenær hún barst hingað eða hvernig. Við vitum í sjálfu sér ekkert um hana en ég óska eftir upplýsingum sem gætu hjálpað okkur,“ segir Hörður, sem vonast til að fá upplýsingar um hvernig kúlan lenti í kjallaranum:

„Ég vona að einhver kannist við það hvernig hún komst til okkar. Hún gæti hafa legið hér í aldarfjórðung eða meira, ég hef ekki hugmynd um það.“

Hörður bendir á að bæjarstjórnarfundir í Vestmannaeyjum séu haldnir í safninu. „Kúlan var beint undir þeim stað þar sem bæjarstjórnin situr,“ segir Hörður og bætir við að kúlan hafi því nánast verið „undir rassinum á bæjarstjóra“.

„Við erum afskaplega fegnir að kúlan er farin en ég var alveg skíthræddur við þetta.“

Ásgeir Erlendsson, upplýsingafulltrúi Landhelgisgæslunnar, staðfestir að farið hafi verið með kúluna til Reykjavíkur, þar sem lagt verður mat á uppruna hennar. Nokkuð öruggt þykir að hún sé frá tímum síðari heimsstyrjaldarinnar.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka