Ríkissjóður Íslands greiddi bætur vegna Guðmundar- og Geirfinnsmála í gær. Þetta kemur fram á forsíðu Fréttablaðsins í dag.
Þar kemur fram að Albert Klahn Skaftason, Guðjón Skarphéðinsson og Kristján Viðar Júlíusson hafi fengið greiddar bætur sem og maki og börn Tryggva Rúnars Leifssonar og Sævars Marinós Ciesielski.
Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra staðfestir þetta í samtali við Fréttablaðið. Við samþykkt laganna tók forsætisráðuneytið við keflinu af ríkislögmanni um ákvörðun bótafjárhæða. Alls voru greiddar út 774 milljónir.
Í lögunum er kveðið á um að greiðsla bótanna komi ekki í veg fyrir að bótaþegarnir geti sótt frekari bætur fyrir dómstólum, en Guðjón Skarphéðinsson er sá eini sem hefur stefnt ríkinu til greiðslu bóta vegna málsins.