Fólk bognar undan álaginu

Guðmundur Andri Thorsson, þingmaður Samfylkingarinnar.
Guðmundur Andri Thorsson, þingmaður Samfylkingarinnar. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Við heyrum oft orð eins og kulnun og örmögnun. Við heyrum margar sögur af því hvernig viðkomandi einstaklingar fara yfir þolmörk sín, bogna undan álaginu, því að slík umönnunarstörf eru ekki aðeins líkamlega krefjandi heldur getur fylgt þeim mikil sorg,“ sagði Guðmundur Andri Thorsson, þingmaður Samfylkingarinnar, í umræðu um örorku kvenna og álag við umönnun á þingi í dag.

Guðmundur sagði að tvær skýrslur hefðu vakið nokkra athygli og kölluðu á frekari umræður og viðbrögð. „Annars vegar er um að ræða skýrslu Kolbeins Stefánssonar frá síðasta hausti um aukna örorku kvenna yfir fimmtugu, stóraukna, og hins vegar nýlega skýrslu Eurostat þar sem kemur fram að um 9% fullorðinna Íslendinga sinna umönnun langveikra, fatlaðra eða aldraðra ástvina sinna,“ sagði Guðmundur.

Fjallað var um skýrslu Kolbeins síðasta haust en þá sagði Þuríður Harpa Sig­urðardótt­ir, formaður Öryrkja­banda­lags­ins, meðal annars að það væri verulegt áhyggjuefni að konur yfir fimmtugu leggi mest til fjölgunar örorkulífeyrisþega.

Guðmundur sagði Íslendinga skera sig úr varðandi ummönnun ástvina. Í Evrópu hafi um fjögur prósent fólks umönnun ástvina á sinni hendi en á Norðurlöndum væru þetta um þrjú prósent. Hér eru það níu prósent.

Við megum ekki alhæfa um of og auðvitað eigum við mörg dæmi um karla sem slíkum umönnunarstörfum sinna, ýmist einir eða með konum. En ég held þó að óhætt sé að segja að í flestum tilvikum sé það svo að þessi störf lenda hjá konunum í fjölskyldunum. Eins og áður segir bætist það iðulega við krefjandi störf á vinnumarkaði og það er ekki fjarri lagi að álykta að það sé samhengi á milli þessa álags á konum innan fjölskyldnanna og svo þeirrar staðreyndar að fjölgun örorkulífeyrisþega hér á landi að undanförnu hefur verið að langmestu leyti í hópi kvenna á aldrinum 50–60 ár,“ sagði Guðmundur.

Hann spurði hvort það ætti ekki að vera sameiginlegt verkefni samfélagsins að taka utan um aldraða og hjúkra sjúkum og styðja lasburða. Guðmundur spurði enn fremur hvort um væri að ræða birtingarmynd þess að það vanti hjúkrunarfræðinga og sjúkraliða um allt land.

Er þessi aukna örorka kvenna á aldrinum 50–60 ára ef til vill fórnarkostnaðurinn af því að velta skyldum velferðarsamfélagsins yfir á fjölskyldurnar og inn á heimilin í landinu þar sem þær lenda þyngst á herðum kvenna?“ spurði Guðmundur.

Umhugsunarefni að umönnun lendi mest á herðum kvenna

Mér finnst það sérstakt umhugsunarefni að umönnunin lendi mest á herðum kvenna en samkvæmt rannsókn Eurostat er tíðni, og við erum að tala um tíðni hér, umönnunar hærri meðal kvenna en karla hérlendis,“ sagði Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra.

Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra.
Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Hún sagði að mikilvægt væri að halda því til að haga að tölurnar sýna ekki umfang veittrar umönnunar heldur hlutföll þeirra sem veita umönnun reglulega. 

Ég vildi í þessari umræðu nefna nokkur verkefni sem eru á mínu borði á kjörtímabilinu og eru til þess fallin að draga úr álagi á fjölskyldur. Fyrst vil ég nefna að árið 2018 veitti ég Landspítala sérstakt framlag til að koma á fót stuðningsteymi fyrir langveik börn með miklar stuðningsþarfir vegna sjaldgæfra sjúkdóma. Foreldrarnir hafa kallað eftir því árum saman að það sé félagslegur stuðningur og öflugt stuðningsteymi fyrir þann hóp til að draga úr álagi þar. Þjónusta við aldraða hefur verið styrkt umtalsvert. Heimahjúkrun hefur verið efld. Fjármagni hefur bæði verið beint hingað á höfuðborgarsvæðið og til Akureyrar,“ sagði Svandís og hélt áfram:

„Heilsueflandi móttökur innan heilsugæslunnar hafa verið fjármagnaðar sem eru ætlaðar sérstaklega eldra fólki og einstaklingum með fjölþætt og langvinn heilsufarsvandamál. Ég hef sett af stað starfshóp sem vinnur að endurhæfingarstefnu. Við erum í stórsókn í uppbyggingu hjúkrunarrýma og áætlunin sem núna er fjármögnuð í fjármálaáætlun gerir ráð fyrir 580 nýjum rýmum á tíma fjármálaáætlunarinnar. Til samanburðar má geta þess að 140 rými bættust við á tíu árum þar á undan. Dagdvalarrýmum hefur verið fjölgað markvisst og þá erum við að horfa á sértæk dagdvalarrými líka fyrir fólk með heilabilun, sérhæfð dagdvalarrými fyrir MS-fólk og sveigjanlega dagdvöl á Akureyri, sjúkrahótel við Hringbraut hefur verið opnað og hér eru bara nefnd nokkur verkefni sem eru til þess fallin að draga úr álagi á fjölskyldur sem sinna umönnun ástvina sem þurfa á heilbrigðisþjónustu að halda.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert